Tilkynna ekki um vímuefnanotkun til hins opinbera

Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.
Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.

„Þegar fólk leitar til okkar vegna fíknivanda tökum við á því með fólkinu en við tilkynnum ekki fólk til hins opinbera fyrir að hafa neytt vímuefna,“ segir Hörður J. Oddfríðarson, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ.

Hörður segir að vissulega geti komið til þess að fólk sé þvingað í meðferð en tekur fram að það sé aldrei hlutverk meðferðaraðilans. Hann segir þó geta komið upp mál sem meðferðaraðilum er skylt að tilkynna um t.a.m. þegar grunur er um brot gegn barnaverndarlögum eða þá umferðarlögum. Það síðarnefnda á helst við ef meðferðaraðilar vita af eða sjá skjólstæðinga akandi undir áhrifum áfengis eða vímuefna en Hörður bendir á að raunar beri öllum skylda til að tilkynna slíkt.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hugðust norsk heilbrigðisyfirvöld svipta unga íslenska konu bílprófinu þegar hún leitaði sér hjálpar vegna kannabisfíknar þrátt fyrir að hún hafi aldrei ekið undir áhrifum. Hún hafði hætt að drekka áfengi af sjálfsdáðum nokkrum mánuðum fyrr en vildi styrkja sig gegn fíkninni og fá hjálp við að hjálpa sjálfri sér að hætta reykingunum.

Hana grunaði ekki að kerfið myndi reyna að ganga á réttindi hennar með þeim hætti sem varð en sálfræðingar hennar féllu loks frá því að tilkynna neyslu hennar til lögreglu, að því gefnu að hún mætti reglulega í þvagprufu meðfram sálfræðimeðferð til þess að sanna að hún héldi sig á beinu brautinni.

Lögfræði ræður ekki ríkjum

„Við göngum út frá þeirri hugmyndafræði að við séum að fást við sjúkdóm og meðhöndlum fólkið sem kemur til okkar með það í huga. Ef það þarf frekari aðstoð, annars staðar en hjá okkur, er það gert á læknisfræðilegum forsendum, það er engin lögfræði sem ræður þar ríkjum,“ segir Hörður.

Hann segir fólk ekki skikkað í þvagprufur af SÁÁ nema viðkomandi hafi gert samkomulag við þriðja aðila s.s. Reykjavíkurborg eða Barnaverndarnefnd. Segir hann meðferðaraðila ekki hafa lagaheimild til þess að þvinga fólk sem leitar sér aðstoðar af sjálfsdáðum til slíks.

„Ef einhver óskar aðstoðar okkar fær hann aðstoð á því plani sem viðkomandi er. Það tekur stundum tíma fyrir fólk að koma sér í stellingar til að geta tekið á sínum málum og við reynum að aðstoða fólk eins og við getum á meðan. Ég sé ekki að við getum verið til aðstoðar ef við þyrftum að tilkynna vímuefnanotkun til lögreglunnar, það passar ekki hugmyndafræðinni sem við vinnum eftir.“

Frétt mbl.is:

„Ég er ekki tala á blaði“

Hörður Oddfríðarson er dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ.
Hörður Oddfríðarson er dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ. Ljósmynd/ Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert