Víkingaaðferðin vinsæl í London

Svava Sigbertsdóttir
Svava Sigbertsdóttir Ljósmynd/Svala Ragnars

Svava Sigbertsdóttir einkaþjálfari kennir Bretum að æfa eins og harðjaxlar og kallar það víkingaaðferðina, The Viking Method, sem er að verða ein umtalaðasta þjálfunaraðferðin í bransanum í London um þessar mundir, og þjálfar meðal annars sjálfa Nicole Scherzinger. 

„Mér finnst svolítið skrítið að tala íslensku við einhvern í London, ég umgengst eiginlega enga Íslendinga hér og er bara með enskumælandi fólk í þjálfun. Ég ætla að reyna að tala bara íslensku en þegar ég er að tala um líkamann og æfingar er ég stundum svolítið „slow“ að hugsa á íslensku, en ég er ekkert hrifin af slettum samt, mér finnst að fólk eigi að vanda sig við að tala sitt eigið tungumál,“ segir Svava og hlær að sjálfri sér.

Við bregðum okkur inn á kaffihús skammt frá hótelinu þar sem Svava vinnur sem þjálfari í líkamsræktarstöð, í einu af flottari hverfum borgarinnar, Knightsbridge. Svava hefur búið í áratug í London og lagt hart að sér við að þróa sitt eigið æfingakerfi og koma því á framfæri. Árangur erfiðisins er að koma í ljós, fjölmiðlar minnast reglulega á The Viking Method og undanfarnar vikur hefur Svava birst í The Sunday Times, The Daily Telegraph og á Sky-sjónvarpsstöðinni FabTV.

Dansinn hentaði ekki

Svava er 34 ára stelpa úr Árbænum, dóttir Birnu Ágústsdóttur og Sigberts Berg Hannessonar en stjúpi hennar er Vilhjálmur Reynir Sigurðsson. „Ég er elst af þremur alsystkinum, bróðir minn er Ágúst Bent, rappari úr XXX Rottweilerhundum og nú sjónvarpsþáttahöfundur. Systir mín, Hildur Selma, er listakona og svo á ég 18 ára hálfsystur, Berthu Maríu, sem var að fara sem au-pair til Danmerkur. Stjúpsystkinin eru svo þrjú, þetta er ekta nútímafjölskylda,“ segir Svava sposk.

Hún segir að hún hafi þurft mikla útrás í hreyfingu sem barn og unglingur og æfði því bæði handbolta og fótbolta með Fylki, fór í Jazzballetskóla Báru og eróbikk hjá Magnúsi Scheving en stundaði einnig íþrótt hugans, skák, hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Meðfram námi í Fjölbrautskólanum í Breiðholti var Svava í Listdansskóla Reykjavíkur en 18 ára gömul eignaðist hún dótturina Hrafnhildi Birnu „sem í dag er yndislegasti unglingur sem fyrirfinnst,“ samkvæmt stoltri móðurinni.

„Ég fór svo hingað til London árið 2004 til að læra dans, fór í söngleikjaskólann Millenium Performing Arts og tók ballett, stepp, djass og allt þetta og kláraði svo BA-gráðu í dansi í Guildford School of Acting. En þótt mér þyki ofsalega gaman að dansa þá fann ég mig ekki alveg í þeim bransa, sýningarnar eru á kvöldin og mikil ferðalög, það hentaði mér ekki sem einstæðri móður. Ég hef verið í íþróttum frá því ég var krakki og mig langaði að vinna eitthvað við þær. Ég hef líka voða gaman af að vinna með fólki svo ég fór í jógakennarann og fékk svo vinnu á líkamsræktarstöðinni á þessu hóteli. Mig langaði alltaf að verða einkaþjálfari en gera samt eitthvað öðruvísi og nýta allt það sem ég hef gert í gegnum tíðina. Svo ég bætti við mig einkaþjálfaranámi, næringarfræði og íþróttanæringarfræði og byrjaði strax að þróa eigin aðferð sem ég er núna búin að setja saman í einn pakka og kalla The Viking Method.“

Ekkert ýkt

En þegar kemur að því að útskýra fyrir blaðamanni út á hvað þjálfunin gengur vandast málið aðeins, þrátt fyrir að hægt sé að finna upplýsingar á vefsíðunni www.thevikingmethod.com. „Það er dálítið erfitt að lýsa þessu í orðum. Þetta er bara „functional training“, sem er samt ofnotað orð núorðið. Ég læt fólk nánast bara nota líkamann, nota engin tæki, bara handlóð og það ekki einu sinni þung lóð þannig að enginn skemmir á sér hnén þótt hann geri eitthvað rangt.“ Svava segir að samsetning æfinganna skipti meginmáli. „Segjum sem svo að þú sért látin skríða hratt á jörðinni fram og til baka, eins og Spiderman, annaðhvort ein manneskja eða tvær saman sem skríða hvor undir aðra og hoppa hvor yfir aðra. Um leið og það er búið ferðu svo strax t.d. í mjög hægar armbeygjur, á meðan þú stendur á öndinni eftir skriðæfingarnar. Þá notar líkaminn svo miklu meiri orku og brennslan verður allt öðruvísi en við hefðbundnar æfingar. En ég passa að taka ekki of langar lotur, það er ekki hægt að halda uppi sprengikrafti í tvær mínútur þannig að fólk hamast í mesta lagi í 45 sekúndur en fer svo beint í hægari æfingu. Og fólk er til dæmis mikið á maganum, á jörðinni. Við gerum eiginlega aldrei magaæfingar en við vinnum samt stöðugt með magann. Fólk er rosalega mikið að gera eitthvað, eins og þrautir, s.s. draga sig áfram á handleggjunum og þurfa svo að teygja sig eftir handklæði eða lóðum, færa hluti til meðan það heldur armbeygjustöðu og þess háttar, er að nota líkamann allt öðruvísi en það er vant. Og bæði æfingarnar og næringarráðgjöfin miðast við að koma jafnvægi á hormónin í líkamanum,“ segir Svava og reynir að útskýra fyrir blaðamanni í stórum dráttum hvernig hormónin virka, sem þarfnast nánari kennslu áður en því verður miðlað áfram. En eitt af því sem síaðist inn var að Svava telur það t.d. kolrangt að fá sér banana stuttu fyrir æfingu því það geti dregið úr fitubrennslu. Hún mælir með því að fólk neyti alls ekki sykurs, í hvernig formi sem hann er, 90 mínútum fyrir æfingar. En hún er ekki mjög ströng og ætlast ekki til þess að fólk hætti að neyta einhverrar fæðutegundar. „Ég hef alltaf verið á móti megrunarkúrum, af því ég er ekkert ýkt manneskja sjálf og skil vel fólk sem springur á öllum megrunakúrum því mér þykir hræðileg tilhugsun að lifa svoleiðis,“ segir Svava sem maular engifersmáköku meðan við spjöllum, án samviskubits.

Aðspurð hvort hún finni mikinn mun á Íslendingum og Bretum hvað varðar heilsurækt segir hún Íslendinga nokkuð á undan í þeim málum. „Heima eiga allir líkamsræktarkort, vita heilmikið um holla lífshætti og eru mjög uppteknir af að fylgjast með heilsurækt. Þar hefur líka nánast annað hver maður prófað að taka þátt í fitness-keppni, fitness er miklu meira áberandi á Íslandi en í Bretlandi, hér er það mjög afmarkaður hópur í sínu horni sem stundar svoleiðis en ekki bara venjulegar húsmæður eins og heima!“

Svava segir útlitsdýrkunina þó áberandi í báðum löndum, í Bretlandi tvinnist hún sérstaklega inn í þessa miklu stjörnudýrkun sem hér sé ríkjandi. „Og heilsuræktin gengur þar af leiðandi oft aðallega út á að léttast en ég vil að fólk komist í form til að gera eitthvað, keppist við sjálft sig til að geta t.d. gert armbeygjur, klifrað yfir vegg eða eitthvað svoleiðis. Að losna við aukakílóin er svo bara bónus, ég vil að fólk einbeiti sér að því að því verða hraust og hafi gaman af því að geta gert hluti sem það gat ekki áður,“ segir Svava og bætir við að hún sé alls ekki einn af þessum ströngu, hörðu þjálfurum sem standi öskrandi yfir fólki eða skammi það fyrir að klikka á mataræðinu, eins og einhver ógurlegur víkingur. „Æi, fólk er svo gagnrýnið á sig sjálft, enginn rífur mann meira niður en maður sjálfur svo það er alls ekki mitt hlutverk að gera það. Ég vil frekar að fólk hafi gaman af því sem það gerir og verði spennt yfir því að ná markmiðunum, hversu lítil eða stór sem þau eru.“

Nicole í drullunni

Þjálfunaraðferð Svövu virðast virka ef marka má vaxandi vinsældir hennar. Söngkonan og X-Factor-dómarinn Nicole Scherzinger er ólöt við að dásama The Viking Method í fjölmiðlum en Svava þjálfar Nicole meðan hún dvelst í London. Nicole er einmitt í krefjandi hlutverki Grisabellu í Cats á West End þessar vikurnar.

„Nicole er alveg yndisleg, hún hamast svo hún verður löðursveitt og hikar ekki við að skríða í jörðinni og verða drullug á æfingum,“ segir Svava en einnig þjálfar hún m.a. fyrirsætuna og leikkonuna Suki Waterhouse.

Svava segist hafa áttað sig snemma á því að til að festa sig í sessi í þessum bransa þyrfti hún að fá þekktan einstakling sem viðskiptavin. „Þetta er náttúrlega milljónaborg og mikil samkeppni. Ég er búin að eyða ótrúlegum tíma við tölvuna að senda tölvupósta á alla sem mér datt í hug, senda fréttatilkynningar á fjölmiðla og reyna að fá einhverja umfjöllun, en þótt þeir sýndu einstaka sinnum viðbrögð vantaði alltaf eitthvert frægt nafn, þannig virka hlutirnir bara hér.“

Svo Svava fór að fylgjast vel með fréttum af fræga fólkinu og þegar hún sá að Nicole Scherzinger væri að koma til London til að vinna datt henni í hug að hana vantaði þjálfara á meðan og bauð henni aðstoð sína. Nicole leist vel á The Viking Method-aðferðina og sló til og það getur enginn efast um það sem sér myndir af henni að Nicole er greinilega í fantaformi.

Íslendingar meiri harðjaxlar

En hvaðan kemur tengingin við víkinga? Varla stunduðu þeir svona æfingar og mataræðið er væntanlega ekkert líkt matarvenjum á víkingaöld? „Þetta er bara tenging við það hvað við Íslendingar erum miklir harðjaxlar,“ segir Svava og glottir. „Mér finnst Íslendingar almennt harðari af sér og það kemur fram í líkamsræktinni líka. Hérna er ekki eins algengt að fólk eigi yfir höfuð líkamsræktarkort og þegar það kemur t.d. að því að þjálfa konur, þá rak ég mig oft á að þær eru ekki eins vanar hörkupúli eins og konurnar heima. Þar gera bara allir sömu æfingarnar, karlar og konur, en þegar ég byrjaði að vinna hér fyrst voru skýrar línur milli karla- og kvennatíma. Konurnar hérna veigruðu sér frekar við að verða sveittar og rugla hárgreiðslunni í ræktinni, sem var alveg nýtt fyrir mér því á Íslandi eru konurnar svo miklir töffarar.“ Hún skellir upp úr þegar hún rifjar upp þegar það var kvartað undan jógatímunum hennar á líkamsræktarstöðinni, því konurnar þar þyrftu að púla svo mikið en fengju litla hvíld. Það var þá sem yfirmenn Svövu buðu henni að hætta með jóga og byrja með sína eigin tíma, með eigin aðferðum.

Svava hefur haldið stutt námskeið á Íslandi með þessari þjálfunaraðferð sinni og stefnir að því að halda annað þar með vorinu, en í augnablikinu gerast hlutirnir í London og þar líkar henni vel. „Mér finnst Ísland æðislegt og sakna fjölskyldu og vina þar mikið. Mig langaði til dæmis ekkert að fara út aftur eftir jólafríið, en svo hugsaði ég með mér að ef ég væri ekki í fríi, heldur að fara á fætur á dimmum janúarmorgni til að fara í vinnuna, þá væri þetta kannski ekki alveg eins gaman. En ég er líka búin að koma mér vel fyrir í London með dóttur minni, mér þykir vænt um kúnnahópinn minn hér í Knightsbridge og mér finnst allt fólkið hérna alveg sérstaklega vingjarnlegt og almennilegt.“

Hún kennir ennþá tvisvar í viku á líkamsræktarstöðinni á hótelinu. „En svo er ég bara með kúnna hér í kring og þjálfa þá hérna úti í einkagarði eða heima hjá þeim. Það eru flestir með líkamsræktaraðstöðu heima hjá sér í þessu hverfi. Svo er ég auðvitað líka með fjarþjálfun á netinu,“ segir Svava sem er byrjuð að taka upp myndbönd til að setja á YouTube þar sem verður hægt að sjá betur út á hvað æfingarnar hennar ganga. Nú þegar boltinn er farinn að rúlla hefur Svava varla undan að svara fyrirspurnum og er einnig byrjuð að undirbúa að opna sína eigin líkamsræktarstöð í London. „Ég stefni að því að minnsta kosti á næsta ári, en það gæti líka orðið fyrr, þetta er allt í vinnslu,“ segir hún leyndardómsfull.

Svava Sigbertsdóttir
Svava Sigbertsdóttir Ljósmynd/Svala Ragnars
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert