25 stórmeistarar þegar skráð sig á mótið

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, og Agnar Tómas Möller, fyrir …
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, og Agnar Tómas Möller, fyrir hönd GAMMA, undirrituðu í dag samstarfssamning til fjögurra ára. Verður GAMMA aðalstyrkaraðili Reykjavíkurskákmótsins. Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga, var viðstaddur undirritunina en mótið í ár er jafnframt afmælismót Friðriks sem fagnar áttatíu ára afmæli sínu í dag, 26. janúar. Borðið sem þeir sitja við var eitt af skákborðunum sem notað var í einvígi aldarinnar milli Spassky og Fischer árið 1972. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þegar hafa 25 stórmeistarar í skák skráð sig á Reykjavikurskákmótið og á enn eftir að fjölga í þeim hópi að mati Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands. Reykjavíkurskákmótið 2015 fer fram 10. til 18. mars í Hörpu og er 29. mótið í ríflega fimmtíu ára sögu þess.

GAMMA verður aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins og undirrituðu Gunnar Björnsson og Agnar Tómas Möller, fyrir hönd GAMMA, samstarfssamning til fjögurra ára í dag. Við sama tilefni var nýtt merki mótsins afhjúpað á sjálfum skákdeginum, sem haldinn er á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák. 

Gunnar Björnsson segist fagna tímamótasamstarfi við GAMMA um alþjóðlegu Reykjavíkurskákmótin 2015 til 2018: „Sá öflugi stuðningur tryggir mótinu áframhaldandi umgjörð við hæfi. Áherslur Gamma á fagmennsku og árangur falla vel að framtíðarsýn Skáksambandsins, sem væntir góðs af samstarfinu við GAMMA, ekki síst varðandi mótið í ár og 80 ára afmælismót Friðriks Ólafssonar,“ er haft eftir Gunnari í fréttatilkynningu.

Friðrik Ólafsson, sem er áttræður í dag, var viðstaddur undirskriftina. Friðrik varð Íslandsmeistari í skák 17 ára gamall árið 1952 og næstu árin var hann á meðal bestu skákmanna heims. Þá var Friðrik forseti FIDE frá 1978 til 1982 og skrifstofustjóri Alþingis um árabil. Er Reykjavíkurskákmótið haldið honum til heiðurs í ár.

Metþátttaka var slegin í fyrra þegar 255 skákmenn frá 35 löndum tóku þátt á Reykjavíkurskákmótinu. Mótið nýtur mikillar virðingar og var í fyrra valið næst besta opna skákmót heims af samtökum atvinnuskákmanna en mörg hundruð opin mót eru haldin um allan heim á hverju ári.

Meðal keppenda í ár er aserski ofurstórmeistarinn Shakhriyar Mamedyarov, einn sterkasti skákmaður heims, og lykilmaður í landsliði Aserbaídsjan sem er núverandi Evrópumeistari landsliða. Indverska skákdrottningin, Tanya Sadchev, tekur einnig þátt en hún er af mörgum álitin þjóðhetja  á Indlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert