Friðrik heiðursborgari Reykjavíkur

Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák.
Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák. mbl.is/Ómar

Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák, verður gerður að heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða, miðvikudaginn 28. janúar. Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra þar að lútandi á fundi sínum á fimmtudag.

Friðrik Ólafsson er sjötti maðurinn sem gerður er að heiðursborgara Reykjavíkurborgar. Þeir sem hlotið hafa þessa nafnbót áður eru; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010, Erró árið 2012 og Yoko Ono árið 2013. 

Með því að sæma Friðrik Ólafsson heiðursborgaratitli vill Reykjavikurborg þakka Friðriki fyrir árangur hans og afrek á sviði skáklistarinnar, segir í tilkynningu frá borginni.

Friðrik fagnar 80 ára afmæli sínu í dag, 26. janúar, „og er vel við hæfi að heiðra hann fyrir dýrmætt framlag hans til íslenskrar menningar á þeim tímamótum,“ segir í fréttinni.

Enginn haft eins mikil áhrif á skákina

„Áhugi á skák er óvíða meiri en á Íslandi. Þessi áhugi stendur á gömlum merg en líklega hefur enginn Íslendingur haft jafn mikil áhrif á skákíþróttina hérlendis og Friðrik Ólafsson,“ segir í frétt Reykjavíkurborgar.

Friðrik er fæddur árið 1935 og varð Íslandsmeistari í skák aðeins 17 ára gamall. Hann varð Norðurlandameistari árið eftir og stórmeistari í skák árið 1958, fyrstur íslenskra skákmanna. Með því hóf hann sig upp í hóp sterkustu skákmanna heims og varð um leið víðkunnur jafnt innan skákheimsins sem utan. Afrek hans við skákborðið mörkuðu jafnframt ótvíræð tímamót í íslenskri skáksögu.

Athygli manna á Friðriki vaknaði fljótlega eftir að hann fór að taka þátt í skákmótum sem ungur drengur, bæði vegna þess hve góðum árangri hann náði og ekki síst vegna þess hvernig hann fór að því að ná þessum árangri. Þegar í upphafi sýndi hann óvenjulega dirfsku og hugkvæmni og í skákum hans brá fyrir meiri tilþrifum en menn áttu að venjast.

Árangur Friðriks hafði einnig mikil áhrif á það í hvaða farveg þróun skákmála féll. Jarðvegur skáklistarinnar var plægður þannig að hér hefur sprottið upp og dafnað slík sveit stórmeistara að hver einasta stórþjóð mætti telja sig fullsæmda af slíkri fylkingu.

Friðrik lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands og starfaði hjá dómsmálaráðuneytinu áður en hann varð atvinnumaður í skákíþróttinni árið 1974. Friðrik var forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE á árunum 1978-1982 og að því loknu starfaði hann sem skrifstofustjóri Alþingis. Á sínum skákferli vann Friðrik allmörg alþjóðleg skákmót, varð skákmeistari Norðurlanda og sex varð hann Íslandsmeistari.

Friðrik Ólafsson.
Friðrik Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
Friðrik Ólafsson.
Friðrik Ólafsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert