Illugi feginn að hafa Staðarskála

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Við komum að Staðarskála rétt um þrjúleytið í gær. Þá var nýbúið að loka heiðinni og þegar við keyrðum þar yfir í morgun prísuðum við okkur sæla að hafa ekki farið þarna uppeftir. Í morgun sáum við að margir bílar höfðu farið á hliðina og margir jafnframt fest sig,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, en hann var meðal þeirra sem sátu veðurtepptir í Staðarskála í Hrútafirði í gær.

Eins og sagt var frá í gær voru 300 til 400 manns veðurtepptir í Staðarskála í gær eftir að Holtavörðuheiðinni var lokað. Illugi, sem var á ferð í átta manna hópi, segir að það hafi verið góð stemning í skálanum en Illugi var þar frameftir kvöldi.

„Við sátum þarna saman og spiluðum á spil í nokkra klukkutíma,“ segir Illugi. Aðspurður segir hann að það hafi ekki verið svo slæmt veður við skálann sjálfan. „Það var auðvitað ekki gott veður en ekkert aftakaveður. Við fundum ekki mikið fyrir þessum veðurofsa sem við vissum að væri upp á heiði. En maður skynjaði hann þegar við keyrðum yfir heiðina í morgun og svo þegar við sáum tölurnar á mælum og á netinu. Þar sáum við að það var vindstyrkur í kringum 30 metrar á sekúndu sem er náttúrlega aftakaveður.“

Er ráðherrann nú á heimleið en hann fékk inni á Hvammstanga seint í gærkvöldi. Illugi ber Staðarskála vel söguna og segir að starfsfólkið þar eigi hrós skilið. 

„Ég held að það hafi alveg örugglega selst upp öll spil í Staðarskála þennan dag. Það er alveg ótrúlegt hvað skálinn var vel birgur af mat og drykk. Það verður að hrósa þeim fyrir það,“ segir Illugi. „Ég var að minnsta kosti ósköp feginn að hafa þennan stað á hringveginum í gær.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert