Lægstu laun verði 300 þúsund

SGS fer fram á að það að fólk geti lifað …
SGS fer fram á að það að fólk geti lifað af á dagvinnulaunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti Samtökum atvinnulífsins í dag kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga. Meginkröfur eru þær að miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára.

Að öðru leyti eru meginkröfur að:

  • endurskoðaðar verði launatöflur þannig að starfsreynsla og menntun séu metin til hærri launa.

  • desember- og orlofsuppbætur hækki.

  • vaktaálag verði endurskoðað og samræmt kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.

  • lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu.

  • skilgreind verði ný starfsheiti í launatöflu.

„Kröfurnar mótuðust á fundum í verkalýðsfélögum og á vinnustöðum um land allt og með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana. Þær urðu þannig til í víðtæku, lýðræðislegu ferli í verkalýðshreyfingunni þar sem öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að grundvallaratriði sé að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í yfirvinnu, aukavinnu og akkorði til að framfleyta sér og sínum. „Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Þá á launafólk að njóta þess í launum þegar það öðlast meiri færni í starfi með reynslu og menntun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert