Sjúkradeild verði á öllum minkabúum

Með reglugerðinni er sérstakur viðauki varðandi mat á sárum og …
Með reglugerðinni er sérstakur viðauki varðandi mat á sárum og áverkum og viðmið um hvenær skuli meðhöndla, hvenær skuli kalla til dýralækni eða framkvæma neyðaraflífun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um velferð minka byggða á nýjum lögum um velferð dýra auk laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Ýmis nýmæli má finna í reglugerðinni, nú er gerð krafa um að umhverfi minka í hefðbundnum búrum sé sérstaklega auðgað til að bæta líðan þeirra og öllum minkabúum ber að hafa sérstaka sjúkradeild.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði minka með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Í reglugerðinni eru settar lágmarkskröfur um aðbúnað og skal leitast við að minkar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur.

Reglugerðin er samræmd reglugerðum um velferð annars búfjár í grundvallaratriðum er varðar aðbúnað og umhirðu, auk opinbers eftirlits og úttekta. Sérstakar kröfur eru gerðar um getu, hæfni og ábyrgð þeirra sem halda dýrin. Þetta er nýmæli frá fyrri reglugerð þar sem þess er nú krafist að þeir sem eru ábyrgir fyrir umönnun minka hafi lokið námi tengdu minkabúskap, eða hafi reynslu af minkahaldi. Allir sem halda minka verða að afla sér grunnþekkingar og rekstraraðilum ber að sjá til þess að starfsmenn hljóti grunnþjálfun í umönnun og þörfum minka.

Hafi tiltækan búnað til neyðaraflífunar

Kröfur eru gerðar til minkabænda um eigið eftirlit með dýrunum og taka þær kröfur mið af þörfum dýranna fyrir umönnun sem er mismunandi eftir árstímum og verkefnum á minkabúinu. Þá er gerð krafa um að á hverju minkabúi skuli vera tiltækur búnaður til neyðaraflífunar en að öðru leyti er vísað til reglugerðar um vernd dýra við aflífun.

Þá er í fyrsta sinn fjallað sérstaklega um holdafar minka og fylgir reglugerðinni viðauki um mat á holdafari, en mjög mikilvægt er fyrir heilbrigði minka að þeir séu alltaf í réttum holdum, hvorki of feitir né of grannir. Með reglugerðinni er sérstakur viðauki varðandi mat á sárum og áverkum og viðmið um hvenær skuli meðhöndla, hvenær skuli kalla til dýralækni eða framkvæma neyðaraflífun. Þar sem sár og áverkar geta fljótt orðið alvarlegt vandamál fyrir minkinn er mikilvægt að bændur séu meðvitaðir um það og bregðist hratt og rétt við. Þessir viðaukar auðvelda einnig allt eftirlit með heilbrigði og velferð minkanna, segir í frétt á vef Matvælastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert