„Þetta er alveg galin árás“

Kristinn Hrafnsson
Kristinn Hrafnsson AFP

„Lögfræðingur okkar í Bandaríkjunum hefur þegar sent bréf til Google og krafist skýringa á því af hverju þeir spyrntu ekki við fótum og leituðu alla leiða til að upplýsa okkur um þessa aðgerð,“ segir Kristinn Hrafnsson, aðspurður um fregnir þess efnis að Google hafi afhent banda­rísk­um stjórn­völd­um aðgang að tölvu­póst­um og öðrum gögn­um þriggja starfs­manna Wiki­leaks í tengsl­um við rann­sókn á Wiki­leaks og stofn­anda þess, Ju­li­an Assange. Blaðamennirnir þrír eru Sarah Harri­son, Joseph Far­rel og Krist­inn sjálfur.

Segir Kristinn það bagalegt að  Google hafi brugðist svona við ekki leitað til dómsstóla til þess að fá að upplýsa sína viðskiptavini um að þarna væri verið að brjóta á þeim. „Það er eitthvað sem Twitter gerði á sínum tíma. Þeir fengu slíka kröfu og átti allt að vera í fullri lengd og ekki mátti upplýsa fólk um það. Twitter sætti sig ekki við það og tók það mál fyrir dómstóla og vann málið. Þeir sem að voru fórnarlömb þessara aðgerða, eins og meðal annars Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, fengu upplýsingar um það.“

Kom ekki endilega á óvart

Bætir hann þó við að þó svo að afhendingin séu vonbrigði hafi það ekki endilega komið honum á óvart.

„Mér finnst þetta ekki álitslegt af Google að bregðast svona við og ekki með skörulegri hætti. En frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta ekkert sérstaklega á óvart eftir að hafa kynnst yfirmönnum þess fyrirtækis,“ segir Kristinn. „Mér finnst það þó athyglisvert eftir þau orð sem að forstjóri Google, Eric Schmidt lét falla í samtali við Julian Assagne fyrir nokkrum misserum síðan. Þá sagði hann að Google ætlaði sér að vera fyrir 21. öldina það sem hergagnaframleiðendur voru á 20. öldinni, það er að segja í lykilstöðu á þessum tíma þar sem upplýsingar eru svona mikilvægar. Sá sem hefur aðgang að þeim er í lykilstöðu.“

Kristinn segir að Google hafi nú komið sér þannig fyrir í góðu samstarfi við bandarísk stjórnvöld. „Upplýsingar eru vald og Google hefur komið sér vel fyrir í lykilstöðu. Nú er komið af stað samstarfsverkefni á milli bandaríska hersins og Google varðandi ýmis mál sem snerta þeirra skilgreiningu á sínum öryggis og varnarmálum.“

Ráðist gegn blaðamönnum og hagsmunum þeirra

Hann segir að með þessu sé ráðist gegn blaðamönnum og hagsmunum þeirra. „Mér finnst þetta vera stef í þessu ömurlega lagi sem maður er að heyra oftar og oftar. Það er að segja hvernig menn ráðast gegn blaðamönnum og hagsmunum þeirra. Bandaríkin hafa löngum verið talið fyrirmyndarríki varðandi frjálsa blaðamennsku á síðustu árum. En síðasta áratug höfum við séð aðgerðir sem eru hreint skelfilegar. Þannig að blaðamenn eiga sér lítið skjól, sérstaklega þeir sem fjalla um öryggis- og varnarmál. Þetta er eitthvað sem er fullkomlega ólíðandi.“

Segir Kristinn að þessar aðgerðir sendi fremur kaldræn skilaboð til blaðamanna. „Það er lítið skjól þegar að mönnum er spyrnt saman við glæpamenn með sinni vinnu. Í þessum úrskurði er vísað til fjölda lagagreina sem fela í sér samtals 45 ára fangelsi. Þarna er verið að tala um meint lögbrot á njósnalöggjöfinni, tölvuöryggisbrot og svo framvegis,“ segir Kristinn. „Það eru frekar kaldræn skilaboð til blaðamanna sem gætu átt í hættu á að sjá slíkum lagagreinum veifað næst þegar þeir fjalla um varnar- og öryggismál.“

Sinna einfaldlega hlutverki innan fjölmiðlaumhverfisins

Kristinn segist hafa rætt þessi máli við stofnanda Wikileaks, Julian Assange, en hann dvelur nú í sendiráði Ekvador í Lundúnum.  Þar hefur hann haldiið sig í tvö ár til þess að forðast að vera fram­seld­ur til Svíþjóðar en þar er hann eftirlýstur fyrir kynferðisbrot. 

Assange hefur nú fordæmt aðgerðirnar harðlega í yfirlýsingu.

„Þetta er alveg galin árás á mig, mína kollega og samtökin sjálf. Við erum einfaldlega að sinna ákveðnu hlutverki innan þessu fjölmiðlaumhverfi. Við erum hluti af því og viðurkennt af öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert