„Veðurteppt“ á Barbados og alsæl

Fimm manna íslensk fjölskylda sem dvalið hefur á hitabeltiseyjunni Barbados í Karíbahafi undanfarnar þrjár vikur fékk þær upplýsingar í dag að sökum veðurs verði ekkert af flugferð þeirra heim. Það er þó ekki veðrið á Barbados sem hamlar för heldur kafaldsbylurinn sem er við það að kaffæra New York.

Þegar Harpa Hrund Bjarnadóttir og Helgi Magnús Valdimarsson gengu í hjónaband í ágúst síðastliðnum óskuðu þau sér ferðasjóðs í brúðkaupsgjöf. Varð svo úr að í byrjun ársins að þau flugu á vit ævintýra á Barbados. Fyrstu tvær vikurnar voru þau með bílaleigubíl og á austurhluta eyjunnar þar sem nánast engir ferðamenn eru. Síðustu vikuna hafa þau svo dvalið í höfuðborginni Bridgetown.

Þau áttu flug frá Barbados til New York í dag en því hefur verið frestað um alla vega einn dag vegna hríðarveðurs á austurströnd Bandaríkjanna í dag. Nokkur þúsund flugferðum var aflýst og fleiri frestað vegna mikillar snjókomu. En það er ekki snjókoma á Barbados. „Eldri krakkarnir tveir hlökkuðu reyndar mikið til að fara til New York í fyrsta sinn. En þegar við sáum í hvað stefndi ákváðum við að gera úr þessu dag á ströndinni. Fór svo að þau eru himinlifandi að vera svona „föst“ hér,“ segir Harpa.

Hún segir að vel hafi gengið að hnýta þá enda sem losnuðu eftir að fluginu var aflýst. Þannig hyggst flugfélagið Jetblue færa þau yfir í næstu flugferð til New York á morgun og Icelandair breytti fluginu frá New York án nokkurs kostnaðar. „Óveðrið í New York reyndist því ágætis happafengur og strandardagurinn í dag góður endir á fullkomnu fríi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert