Aflýsa íbúafundi í Grímsey

Grímsey.
Grímsey. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fyrirhuguðum fundi sem halda átti í Grímsey á morgun, 28. janúar, og blaðamannafundi á Akureyri morguninn eftir, hefur verið aflýst af óviðráðanlegum orsökum. Stefnt er að því að boða annan fund með einhverju sniði við fyrstu hentugleika allra sem að málinu koma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.

Í millitíðinni halda bæjarfulltrúar og starfsfólk Akureyrarkaupstaðar, ásamt fulltrúum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Byggðastofnunar, áfram að vinna að lausn yfirvofandi vanda í atvinnumálum Grímseyinga í nánu samráði við heimamenn að því er fram kemur í tilkynningunni.

Akureyrarkaupstaður hafði boðað til íbúafundar í samstarfi við Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Markmið fundarins var að kalla eftir samtali íbúa, hagsmunaaðila og stofnana um stöðu og möguleika í sjávarútvegi og atvinnulífi í Grímsey.

Komið er að skulda­dög­um út­gerðamanna í eynni við Íslands­banka en afla­heim­ild­ir í eynni voru m.a. keypt­ar með lán­um frá bank­an­um og voru þær sett­ar sem veð. Bank­inn hef­ur komið til móts við út­gerðar­menn og lengt í lán­un­um.

Kynferðisbrotamál skipt Grímseyingum í tvær fylkingar

Auk stöðunnar sem upp hefur komið í eynni, hefur kynferðisbrotamál sem þar kom upp skipt Gríms­ey­ing­um upp í tvær fylk­ing­ar. Hinn meinti ger­andi í fyrr­nefndu kyn­ferðis­brota­máli teng­ist út­gerð í Gríms­ey. Sam­kvæmt Ak­ur­eyri Viku­blaði segja heima­menn að maður­inn eigi ekki aft­ur­kvæmt til Gríms­eyj­ar. Því er ljóst að hafi heima­menn eða aðrir stuðnings­menn út­gerðar í Gríms­ey ekki bol­magn til að kaupa kvóta manns­ins gæti það haft mik­il áhrif á framtíð sjáv­ar­út­vegs og þar með byggðar í eynni.

Grímsey er eitt tíu samfélaga sem sótt hafa um þátttöku í verkefni Byggðastofnunar í svokölluðum „brothættum byggðum.“ Það verkefni er nú í biðstöðu vegna úttektar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og ekki hefur verið tekin ákvörðun um í hvaða röð þessir tíu staðir komast að. Um 90 manns búa í Gríms­ey og er aðal­at­vinnu­veg­ur­inn fisk­veiðar og fisk­verk­un enda stutt á gjöf­ul mið.

Frétt mbl.is: „Takið afstöðu gegn ofbeldi“

Frétt mbl.is: Kynferðisbrotamál skekur Grímsey

Frétt mbl.is: Borgarafundur í Grímsey

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert