„Ég vil ekki vera refsiglaður“

Ólafur Sturla ásamt lögrelgumanni þegar hann sótti kettina.
Ólafur Sturla ásamt lögrelgumanni þegar hann sótti kettina. Ljósmynd/Ólafur Sturla

„Ég fékk símtal seint í gærkvöldi frá lögreglunni um að kettirnir væru allir fundnir. Lögreglan hafði sótt þá í eitthvert hús í Reykjavík sem þeim var bent á,“ segir Ólafur Sturla Njálsson, eigandi þriggja bengal-katta sem stolið var af heimili hans í Nátthaga í Ölfusi í síðustu viku. 

Ólafur Sturla var beðinn að sækja kettina á lögreglustöðina við Grensásveg og urðu þar fagnaðarfundir. „Læðurnar tvær voru mjög hvekktar en ég gat alveg tekið þær báðar upp strax og klappað þeim. Fressið er nú allra manna hugljúfi, ekkert mál með hann. En ég fór með þau heim og sat með þeim til klukkan þrjú í nótt. Þá voru þau búin að éta og róast. Í dag má ég klappa þeim öllum og allt í lagi,“ segir Ólafur.

Ætlar ekki að kæra

Ólafur Sturla ákvað strax að kæra ekki þjófana og veit hann ekkert hverjir þeir eru eða hvar í Reykjavík kettirnir fundust. 

„Fressið angar af svona kryddaðri ilmvatnslykt og líka teppi sem kom með þeim. Þannig að ég veit að inni hjá viðkomandi hlýtur allt að anga af mjög kvenlegri lykt. Núna angar húsið mitt af þessari lykt, hún er mjög góð en augljóslega mjög sterk,“ segir Ólafur Sturla. Hann segist þó ekki hafa áhuga á að kæra málið.

„Ég veit ekkert um þetta fólk, þetta gæti verið hver sem er. Þau þurfa ekkert að vera eitthvert misindisfólk, alls ekki. Ég sagði lögreglunni strax að ég vildi ekki kæra þetta. Ég vil ekki vera refsiglaður. Ég vil frekar senda fólkinu góða strauma og biðja þess að því batni og finni að það þarf að leita sér aðstoðar,“ segir Ólafur Sturla. „Það er besta leiðin, við erum svo refsiglöð á Íslandi,  það virkar ekki alveg.“

Ólafur Sturla er þakklátur lögreglunni fyrir störf sín. „Það hafa fjölmargir lögreglumenn komið að þessu á mörgum vöktum, fimm sólarhringa í röð. Ég er mjög þakklátur þeim fyrir sín störf.“

„Ég neita að lifa í hræðslu“

Aðspurður segist hann ekki ætla að auka öryggisráðstafanir við Nátthaga. „Mér hefur verið margoft bent á það síðustu daga en ég spyrni við því. Ég neita að lifa í hræðslu og það að auka öryggisráðstafanir býður bara upp á öryggislaust líf.“ 

Ólafur Sturla segir að kettirnir hafi verið í ágætu ásigkomulagi en nokkuð horaðir. „Þau horuðust öll en minnsta læðan, Ísabella Sóley, er verst farin. Hún er greinilega búin að éta lítið og hefur horast. En hún er farin að róast núna.“

Hann telur að kettirnir hafi verið skelkaðir í haldi þjófanna þó að ekki hafi endilega verið farið illa með þá. „En eitt sem ég var að gera mér grein fyrir er að ég var ekki nýbúinn að klippa klærnar þeirra. Þær voru orðnar mjög langar. Ég er viss um að þjófarnir hafa aldeilis fundið fyrir því, sérstaklega hjá læðunum,“ segir Ólafur. „Þær eru ekki týpurnar sem fara upp að öllum og allt í lagi. Ókunnugir eiga ekkert að abbast upp á þær.“

Fallegi fressinn Prince.
Fallegi fressinn Prince. Af Facebook-síðu Nátthaga
Tvær kelnar bengal-kisur.
Tvær kelnar bengal-kisur. Af Facebook-síðu Nátthaga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert