Gagnrýnir fréttaflutning af meintu kynferðisbrotamáli

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Sigurgeir

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, hefur sent fjölmiðlum tilkynningu þar sem hann gagnrýnir fréttaflutning af meintu kynferðisbrotamáli í Grímsey. Vilhjálmur er verjandi útgerðarmanns í Grímsey, sem ung kona kærði til lögreglu fyrir kynferðisbrot.

Konan, Val­gerður Þor­steins­dótt­ir, er 21 árs gömul, en hún sagði sögu sína opnu­viðtali við Ak­ur­eyri Viku­blað. Hún kveðst hafa verið 14 ára þegar miðaldra fjöl­skyldu­vin­ur braut fyrst gegn henni þar sem hún var að störf­um í út­gerð í Gríms­ey. Seg­ir hún mann­inn hafa nauðgað sér ít­rekað allt þar til hún var 17 ára en þá hafi hún öðlast styrk til þess að segja hon­um að hætta.

Vilhjálmur gagnrýnir það að umbjóðandi hans hafi verið kallaður „gerandinn“ og „brotamaðurinn“ í viðtalinu, enda hafi hann ekki verið ákærður ennþá, og ekki sé búið að kveða upp dóm yfir honum.

Hér fyrir neðan má lesa fréttatilkynninguna í heild:

„Þann 15. og 22. janúar 2015, birti Vikublaðið Akureyri, tvær forsíðufréttir um umbjóðanda minn sem er útgerðarmaður í Grímsey, þar sem honum er meðal annars gefið að sök að hafa misnotað 14 ára unglingsstúlku kynferðislega. Í fréttum Vikublaðsins Akureyri er umbjóðandi minn meðal annars kallaður „gerandinn“ og „brotamaðurinn“ og fullyrt að hann eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar. Enginn fyrirvari er gerður við það í fréttum Vikublaðsins Akureyri að umbjóðandi minn hefur hvorki verið ákærður né dæmdur fyrir kynferðisbrot heldur er fullyrt að sakamálið sem um ræðir hafi verið dómtekið. Það er rangt en áður en sakamál er tekið til dóms þarf að gefa út ákæru og málið að hljóta dómsmeðferð.

Umbjóðandinn hefur gefið eina skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Þar neitaði hann alfarið sök. Í frétt Vikublaðsins Akureyri er þess í engu getið enda sá blaðið ekki ástæðu til þess að leita eftir afstöðu umbjóðanda míns til þessara alvarlegu ásakana. Það er vond blaðamennska og í andstöðu við starfsreglur flestra fjölmiðla. Afleiðing er sú að umræddar fréttir Vikublaðsins eru uppfullar af rangfærslum. 

Í Vikublaðinu Akureyri er síðan reynt með farsakenndum hætti að gera umbjóðanda minn ábyrgan fyrir því að „Byggð sé að blæða út í Grímsey“ eins og blaðið kallar það, en þar er því haldið fram að hið meinta kynferðisbrot hafi leitt til þess að umbjóðandi minn eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar og því muni hann selja kvóta sem er í eigu fyrirtækisins í hans eigu og fleiri burtu úr eynni. Þessar ævintýralegu rangfærslur hafa síðan aðrir fjölmiðlar, s.s. Vísir.is, Mbl.is og DV.is, étið gagnrýnislaust upp án þess að hafa einu sinni rætt við umbjóðanda minn eða meðeigendur hans í fyrirtækinu sem á kvótann. 

Í gær, 26. janúar 2015, birtist síðan grein í Kvennablaðinu eftir meintan brotaþola þar sem hún heldur því fram að umbj. minn hafi nauðgað henni þegar hún var 14 ára gömul. Þessar nýju upplýsingar segja margt ef ekki allt um trúverðugleika meints brotaþola, en málið var kært til lögreglu, rannsakað og sent til ríkissaksóknara til ákvörðunar, án þess að brotaþoli upplýsti um hina meintu nauðgun. Þessi síðari tíma málatilbúnaður brotaþola dæmir sig því sjálfur. 

Að gefnu tilefni er síðan rétt að minna á að það er hlutverk dómstóla að kveða upp dóma í sakamálum ekki fjölmiðla.“

Frétt mbl.is: „Takið afstöðu gegn ofbeldi“

Frétt mbl.is: Kynferðisbrotamál skekur Grímsey

Frétt mbl.is: Aflýsa íbúafundi í Grímsey

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert