Hraunið hefur þykknað mikið

Gosið hefur staðið yfir í tæpa fimm mánuði.
Gosið hefur staðið yfir í tæpa fimm mánuði. mbl.is/RAX

Undanfarnar þrjár vikur hafa verið gerðar ítarlegar sniðmælingar yfir Holuhrauni. Á þessum tíma hefur hraunið þykknað mikið og er rúmmál þess nú um 1,4 km³. Hraunrennslið var að meðaltali tæplega 100 m³ á sekúndu á tímabilinu. Gosið hefur staðið í rúmlega tæpa fimm mánuði.

Þetta kom fram á fundi Vísindamannaráðs almannavarna í morgun. Eldgosið heldur áfram en sýnileg virkni var með minna móti síðastliðinn miðvikudag þegar margvíslegar athuganir voru gerðar við gosstöðvarnar.

Hægt dregur úr ákafa gossins en vonast er til að hægt verði að mæla stærð hraunsins á ný seinna í vikunni og fást þá nýjar tölur um hraunflæðið. 

Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Átta skjálftar hafa mælst á bilinu M4,0-4,9 frá síðasta fundi Vísindamannaráðs á föstudag. Sá stærsti mældist M4,9 á laugardag, 24. janúar kl. 07:25. Um 40 skjálftar mældust á milli M3,0-3,9 á tímabilinu. Alls hafa mælst um 150 skjálftar í Bárðarbungu frá því á föstudag. Ekki hefur mælst skjálfti yfir M5,0 að stærð frá 8. janúar.

Í kvikuganginum hafa mælst um 50 skjálftar frá því á föstudag. Flestir skjálftanna eru undir M1,0 að stærð en sá stærsti var M1,6 á laugardag, 24. janúar.
GPS mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins.

Í dag má búast við gasmengunin frá eldgosinu víða á norðaustanverðu landinu. Á morgun berst mengunin til suðausturs fyrir hádegi, en síðan til suðurs og suðvesturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert