Sérfræðingar í að viðhalda höftum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Fjármálaráðherra segir að Íslendingar hafi á undanförnum árum orðið sérfræðingar í að viðhalda gjaldeyrishöftum en á sama tíma hafi of lítill kraftur farið í að afnema höftin. Hann segir að afnám hafta geti tekið tiltölulega skamman tíma ef hægt er að stilla saman væntingar, en það hefur ekki gerst.

Sérstök umræða um gjaldeyrishöft fór fram á Alþingi í dag. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi og sagði það kunnara en þurfi að hafa mörg orð um, að verkefni sé eitt það brýnasta, enda kostnaður við gjaldeyrishöftin gríðarlegur.

Hann sagði auðséð að fjármálafyrirtæki eigi erfitt með að fjármagna sig erlendis og að stærri fyrirtæki njóti betri kjara en þau minni, en þannig aukist aðstöðumunur fyrirtækja. Þá séu fjölmargar aðrar neikvæðar afleiðingar af höftunum.

Árni Páll sagði að ríkisstjórnin hafi talað digurbarkalegar um losun hafta en lítið gerist. Það sé þá orðin sérstök bókmenntagrein að fara yfir stórkarlalegar yfirlýsingar, ekki síst Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann spurði hvort Íslendingar væru orðnir fangar yfirlýsinga forsætisráðherra, sem ætlaði með afnámi hafta að færa Íslendingum gríðarlega fjármuni.

Þá gagnrýndi hann þá leynd sem verið hefur yfir verkefninu og sagði að sá leyndarhjúpur veki tortryggni auk þess sem skipun nýrra og nýrra nefnda virðist til vitnis um ágreining um áætlun stjórnvalda.

Höftum ekki skipt út fyrir stöðugleika

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði verkefnið eitt það allra stærsta á sviði efnahagsmála sem ríkisstjórnin vinni að, ef ekki það stærsta. Hann sagði ákveðna hluti þurfa að gerast en þau skilyrði hafi ekki fæðst til að mögulegt sé að létta höftunum. Þannig hafi slitabúin ekki náð að ljúka nauðasamningum og ekki eru uppi raunhæfar væntingar um það hvernig það geti gerst. Það hafi tafið ferlið.

Hann sagði að það geti tekið tiltölulega skamman tíma að losa höftin ef hægt sé að stilla saman væntingar, það hafi hins vegar ekki gerst. Hins vegar hafi jákvæðir hlutir gerst. Íslensk stjórnvöld hafi kortlagt þennan undirliggjandi vanda miklu betur en áður hefur verið gert. Erlendir ráðgjafar hafi komið að málinu og mikið gagn hafi verið af því. Þá sé Seðlabankinn að koma nær vinnunni.

Bjarni sagðist ekki vilja líta þannig á að staðið sé frammi fyrir því vali að hafa höft eða hafa miklar tekjur af afnámi haftanna. Verkefnið snúi að því að viðhalda stöðugleika og ekki verði skipt á stöðugleika og höftum. Stöðugleikinn verði varinn þegar höftin hverfa.

Hann sagðist hafa trú á því að hægt sé að stíga stór skref innan skamms á grundvelli þeirrar vinnu sem er í gangi í stjórnarráðinu, enda hafa aldrei fleiri verið í fullu starfi við að þróa lausnir.

Mikilvægt að ná samstöðu

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði mikilvægt að ná samstöðu um þau skref sem þarf að stíga og það að afnám hafta valdi ekki almennri kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu. Mikilvægt sé að hafa heildarmyndina alltaf undir og því sé mikilvægt að vel sé staðið að málinu og að samstaða verði um þá aðferðarfræði sem verði fyrir valinu.

Hún sagði einnig að hluti af því að geta lent málinu sé að upplýsa Alþingi um gang mála því upp geti komið sú staða að taka þurfi ákvarðanir með skömmum fyrirvara og þá sé mikilvægt að geta náð samstöðu.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagðist kjósa að trúa því að fjármálaráðherra átti sig á mikilvægi þess að ná samstöðu um málið. Til dæmis ef ákveðið verði að fara þá leið að setja á útgönguskatt þá þurfi að hafa mjög sterk pólitísk bein. Skatturinn verði að ganga jafnt yfir alla, þar á meðal lífeyrissjóðina. Um það þurfi að vera þverpólitísk samstaða.

Þá sagðist hann ekki sammála því sem komið hafi fram um að útgönguskatturinn geti verið tekjuöflunarleið fyrir ríkisstjórnina, ekki sé víst að það standi fyrir dómstólum. Hann sagði miklar freistingar fyrir hendi, að reyna græða á útgönguskatti en láta verði af slíkum freistingum.

Kostir kynntir á næstu vikum eða mánuðum

Árni Páll fagnaði í síðari ræðu sinni yfirlýsingu fjármálaráðherra um samráð og sagði að það væri forsenda að lausn. Hann vísaði til þess sem Bjarni sagði um slitabúin og að þau hefðu ekki getað komið sér saman um lausn og sagði óásættanlegt að þau geti ákveðið dagskrá afnáms haftanna.

Bjarni sagði að lokum að sú vinna sem er í gangi í stjórnarráðinu sé sérfræðingavinna en ekki pólitísk. Verið sé að kortleggja vandann með aðstoð sérfræðinga, þannig að hægt sé að kanna alla möguleika til hlíðar. Þeir kostir verði kynntir á næstu vikum eða mánuðum.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert