Síðbúin jólastemning í Boston

Einu bílarnir sem voru á ferli við Harvard Square í …
Einu bílarnir sem voru á ferli við Harvard Square í Cambridge þar sem Gísli býr voru bílar á vegum borgarinnar að ryðja göturnar. Ljósmynd/ Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson, sem búsettur er í Boston í Bandaríkjunum, segir snjókomuna sem gengið hefur yfir svæðið vera öðruvísi en þá sem þekkist hér á landi og segir stemninguna minna um margt á jólin.

„Þótt þetta sé kallaður 'snjóstormur' er ekki mikill stormur. Það er ágætt skyggni og bjart og snjókoman er það sem við myndum kalla hálfgert fjúk. En ofankoman er stöðug og hefur verið síðan í gærkvöldi og það safnast þegar saman kemur. Þótt vindurinn sé ekki mikill hefur fokið í skafla og margir eru úti að moka gangstéttar núna,“ segir Gísli Marteinn.

Eins og mbl.is hefur greint frá er ferðabann í borginni. Allir skólar eru lokaðir, bæði grunnsikólar, menntaskólar og háskólar.

„Það er nokkurn vegin allt stopp hérna í borginni. Fólki er bannað að aka bílum sínum og almenningssamgöngur liggja niðri. Fyrir vikið kemst starfsfólk ekki til vinnu sinnar og aðföng komast ekki í búðir, þannig að næstum allt er lokað,“ segir Gísli Marteinn Baldursson.

„Harvard, skólinn minn ætlaði að reyna að hafa starfsemi í dag, því það eru mikilvægir dagar framundan, þar sem nemendur eru að velja sér námskeið, en síðdegis í gær sendu þeir tilkynningu og sögðu að allar byggingar yrðu lokaðar í dag.“

Þrátt fyrir að fólk megi ekki aka bifreiðum um borgina eru margir sem láta sig ekki hafa það að sitja inni í hlýjunni að sögn Gísla.

„Fjöldi fólk er úti í göngutúr eða á gönguskíðum. Stemning er dálítið eins og á jóladag eða nýársdag heima.“

Sumarfríinu seinkar

Gísli segir veturinn hafa verið mildan og að auð jörð og bjart hafi verið í allan vetur, t.am. hafi verið 12 stiga hiti á jóladag og því myndi margur halda að ofankoman væri talsverð nýlunda fyrir íbúa Boston. Gísli Marteinn segir þó að snjóstormar séu ekki óvenjulegir á svæðinu þrátt fyrir að spáin segði að sá sem nú gengur yfir yrði í stærra lagi.

„Skólarnir sem dætur okkar eru í gefa til dæmis ekki upp nákvæma dagsetningu sem skólahaldi lýkur í vor, því um leið og lýst er yfir 'snjó-degi' eins og í dag, þá bætist dagur aftan við skóladagatalið í vor. Fögnuðurinn yfir því að fá kósí dag heima í dag, er því blendinn, þar sem stelpurnar komast þá síðar í sumarfrí í júní,“ segir Gísli en bætir við að fjölskyldan kunni þó að meta frídaginn.

„Okkur finnst þetta bara skemmtilegt. Við fórum í Whole Foods í gær og keyptum okkur allskonar góðgæti til að borða í dag, og hugsanlega á morgun ef allt er líka lokað þá. Við vorum seint á ferðinni í búðinni, og það var eins og á Þorláksmessu heima. Mikið að gera og ýmsar vörur þegar búnar.“

Tengdar fréttir: 
Á við slæmar íslenskar aðstæður

Snjókoman kemur alltaf á óvart

Gísli Marteinn er í námi við Harvard háskóla sem er …
Gísli Marteinn er í námi við Harvard háskóla sem er lokaður vegna veðurs.. mbl.is/ Kristinn
Það er ekki leiðinlegt að leiðast í snjónum.
Það er ekki leiðinlegt að leiðast í snjónum. Ljósmynd/ Gísli Marteinn Baldursson
Enginn skortur er á sköflum í hverfinu.
Enginn skortur er á sköflum í hverfinu. Ljósmynd/ Gísli Marteinn Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert