„Takið afstöðu gegn ofbeldi“

Flest brot­anna seg­ir kon­an hafa átt sér stað í Gríms­ey.
Flest brot­anna seg­ir kon­an hafa átt sér stað í Gríms­ey. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Þegar maður er fjórtán eða fimmtán ára þá er maður barn! Þegar ég var 14 ára og mér var nauðgað þá var ég barn. Af manni sem var á sjötugsaldri.“

Þetta skrifar Valgerður Þorsteinsdóttir, 21 árs gömul kona, sem hefur kært mann í Grímsey fyrir kynferðisbrot, í pistli á vefmiðil Kvennablaðsins í gær. Málið, sem sagt er hafa skipt Grímseyingum upp í tvær fylkingar, er nú til meðferðar hjá ákæranda við embætti ríkissaksóknara. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um afgreiðslu þess.

Mæta ekki ef hún mætir

Valgerður sagði sögu sína í opnu­viðtali við í Ak­ur­eyri Viku­blað í síðustu viku. Hún kveðst hafa verið 14 ára gömul þegar miðaldra fjöl­skyldu­vin­ur braut fyrst gegn henni þar sem hún var að störf­um í út­gerð í Gríms­ey. Seg­ir hún mann­inn hafa nauðgað sér ít­rekað allt þar til hún var 17 ára en þá hafi hún öðlast styrk til þess að segja hon­um að hætta.

Í Kvennablaðinu segir hún það aðeins hafa verið tímaspursmál hvenær málið kæmist upp á yfirborðið og í fjölmiðla, og því hafi hún ákveðið að segja sögu sína í viðtalinu, svo hún yrði ekki sögð af „einhverjum Jóni úti í bæ.

„Ég heyrði af því að fjölskylda brotamannsins ætli ekki að mæta á Þorrablót í eyjunni ef ég mæti. Það er ekkert skrýtið. Frændi minn og sonarsonur hans (brotamannsins) eru að fara fermast saman í vor. Ætlar þá fjölskyldan hans ekki að mæta í ferminguna ef ég voga mér að mæta í fermingu litla frænda míns? Litla frænda míns sem er 14 ára á sama aldri og ég var þegar mér var nauðgað í fyrsta sinn af manni sem að var sextíu og eitthvað ára gamall,“ skrifar hún.

„Takið afstöðu gegn ofbeldi“

Í viðtal­inu seg­ir kon­an að hinn meinti kyn­ferðis­glæp­ur hafi klofið eyja­skeggja í tvær fylk­ing­ar þar sem meint­ur ger­andi teng­ist einni út­gerðinni í eyj­unni. Sam­kvæmt Ak­ur­eyri Viku­blaði segja heima­menn að maður­inn eigi ekki aft­ur­kvæmt til Gríms­eyj­ar. Því er ljóst að hafi heima­menn eða aðrir stuðnings­menn út­gerðar í Gríms­ey ekki bol­magn til að kaupa kvóta manns­ins gæti það haft mik­il áhrif á framtíð sjáv­ar­út­vegs og þar með byggðar í eynni.

Byggð í Gríms­ey er nú í hættu vegna yf­ir­vof­andi sölu á kvóta úr eynni. Söl­unni er ætlað að gera upp lán sem tek­in voru fyr­ir kaup­um á afla­heim­ild­un­um. 

Í pistli sínum á vefmiðli Kvennablaðsins segir Valgerður að Grímsey sé lítil og ólíklegt sé að þetta mál fái farsælan endi og allt falli í ljúfa löð.

„Til ykkar sem segjast kjósa að vera hlutlaus og taka ekki afstöðu í þessu máli. Þið verðið að ákveða hvar þið ætlið að standa. Í svona málum er enginn á hliðarlínunni að klappa okkur báðum á bakið. Í alvöru. Takið afstöðu gegn ofbeldi.“

Þykir leitt að svörin ollu sárindum

Í pistlinum gagnrýnir Valgerður orð Daníels Guðjónssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við Vísi í síðustu viku þegar hann sagði brotin ekki hafa verið framin gegn barni, og velti upp þeirri spurningu hvenær barn væri barn.

Daníel hefur nú sagt það leitt ef svör hans við spurningu blaðamanns hafa valdið sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en ætlast var.

Í samtali við mbl.is segir Daníel rétt að allir einstaklingar undir átján ára aldri séu börn samkvæmt barnalögum. Það sé þó gjarnan gerður greinamunum á unglingum eða ungmennum og börnum í daglegu tali.

Þá sendi Daníel eftirfarandi áréttingu:

Varðandi umfjöllun um kynferðisbrot í Grímsey

Vegna skrifa í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um svör mín við spurningum fréttamanns um það hvort um barn hafi verið að ræða í máli því sem verið hefur til umfjöllunar um kynferðisbrot í Grímsey þá vill ég koma eftirfarandi á framfæri.

Skv. barnalögum eru allir einstaklingar undir átján ára aldri börn. Í eldri lögum var talað um börn og ungmenni og í daglegu tali er gjarnan gerður greinarmunur á unglingum eða ungmennum og börnum.

Taldi ég fréttamann vera að grennslast eftir því hvort um barn í þessum skilningi væri að ræða en ekki hvort að viðkomandi væri undir átján ára aldri eða ekki. Það voru mín mistök að ganga ekki úr skugga um hver meiningin væri.  

Spurning mín til fréttamanns um það hvenær barn væri barn skoðist í þessu ljósi. Mér þykir leitt ef svör mín hafa valdið einhverjum sárindum eða verið túlkuð á annan hátt en til var ætlast.

Frétt mbl.is: Kynferðisbrotamál skekur Grímsey

Talið er að málið geti haft áhrif á sjávarútveg og …
Talið er að málið geti haft áhrif á sjávarútveg og þar með byggð í Grímsey. Ljósmynd/ Helga Mattína Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert