Utan íslenskrar löggjafar

Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti …
Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti í gær.. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Meint háttsemi Magnúsar Guðmundssonar, fv. forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, heyrði ekki undir íslenska lögsögu og hann hafði ekki umboð til að gefa starfsmönnum bankans á Íslandi fyrirmæli eða skuldbinda hann. Þetta var rauði þráðurinn í máli verjanda hans í al-Thani-málinu í Hæstarétti í morgun.

Magnús var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna viðskipta Kaupþings og sjeiksins Mohameds al-Thani frá Katar með hlutabréf í bankanum árið 2008. Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður, og Ólafur Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, voru einnig dæmdir í fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.

Kristín Edwald, verjandi Magnúsar, lýsti því ítrekað að umbjóðandi sinn hafi verið búsettur og starfandi í Lúxemborg um árabil og öll sú háttsemi sem hann er sakaður um hafi átt sér stað í Bretlandi, Lúxemborg og Katar. Íslensk refsilöggjöf næði því ekki yfir meint brot hans.

Kaupþing í Lúxemborg hafi verið sjálfstætt dótturfyrirtæki með gríðarlega umfangsmikla starfsemi. Magnús hafi ekki haft neina heimild til að skuldbinda Kaupþing á Íslandi. Ákæruvaldið sjálft hafi gengið út frá því og yfirmenn bankans hafi staðfest þetta.

Aðkoma Magnúsar að málinu hafi aðeins falist í því að al-Thani var viðskiptavinur Kaupþings í Lúxemborg. Hann hafi hvorki haft frumkvæði að viðskiptunum né milligöngu um lán Kaupþings til al-Thani vegna hlutabréfakaupanna. Hann hafi heldur ekki haft heimild til að skipta sér að tilkynningu sem gefin var út um kaup sjeiksins á hlut í bankanum.

Af þeim 300 starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg hafi aðeins tólf verið Íslendingar. Fullyrti Kristín að hafi forstjóri bankans úti verið erlendur ríkisborgari þá hefði hann ekki sætt sömu meðferð ákæruvaldsins og Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert