Víða ísing á vegum

Mikil hálka er víða um land.
Mikil hálka er víða um land. mbl.is/Golli

Kólna á í kvöld og krapinn sem nú er á vegum stirðnar og myndar ísingu ásamt því að él verða víða um land fram á nóttina samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Hríðarveður verður um tíma á sunnanverðum Vestfjörðum.

Það éljar á Suðvesturlandi og eru hálkublettir á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Hálka er bæði á Hellisheiði og í Þrengslum og víða er hált á Suðurlandi. Vegurinn um Kjósarskarð er þungfær.

Hálkublettir, hálka eða snjóþekja er all víða á Vesturlandi enda sumstaðar snjókoma eða éljagangur. Á Vestfjörðum er víða ofankoma og hálka eða krapi.

Hálka, hálkublettir eða krapi er á vegum á Norðurlandi, einkum á heiðum og útvegum. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Hálka er austur yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og á Austurlandi er hálka inn til landsins en á köflum hálkublettir með ströndinni. Nokkur hálka er einnig á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert