Vinna saman gegn hefndarklámi

Þórdís Elva rithöfundur.
Þórdís Elva rithöfundur.

Vodafone og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur, taka höndum saman og bjóða foreldrafélögum grunnskóla fræðslu um ábyrga hegðun í stafrænum samskiptum.

 „Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið“ er heitið á nýrri fræðslu fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu, segir í tilkynningu frá Vodafone.

„Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga hefur aukið enn á vandann en persónuleg mynd send vini getur auðveldlega snúist upp í martröð ef hún er misnotuð. Það versta er að netið gleymir engu - það sem þangað fer verður ekki aftur tekið,“ segir í tilkynningunni.

Foreldrafélögum á höfuðborgarsvæðinu og í stærri þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni býðst fyrirlesturinn að kostnaðarlausu. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur en Vodafone er stuðningsaðili verkefnisins. Efnið  byggir m.a. á upplýsingum frá lögreglunni og SAFT, netöryggisverkefni  Íslands, og fleiri aðilum. Markmiðið er að kenna foreldrum helstu hugtökin í þessum málaflokki, benda á leiðir til að fyrirbyggja skaða og hvernig best er að bregðast við ef sexting-mál kemur upp í nærumhverfinu. Einnig fá aðstandendur góð ráð um hvernig eigi að ræða þessi mál við börn og ungmenni. 

„Fræðsla af þessu tagi er fagnaðarefni. Nauðsynlegt er að auka vitundarstigið um afleiðingar myndbirtinga á netinu,“ er haft eftir Friðrik Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í fréttatilkynningu.

Fyrirlestrarröðin hefst  í Sæmundarskóla þann 28. janúar. Hún mun síðan fara á milli grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, auk valinna grunnskóla á landsbyggðinni í fyrstu, fram á vor. Aðgangur er ókeypis hverju sinni og eru foreldrar hvattir til að mæta. 

Hægt er að kynna sér efni fræðslunnar nánar og fylgjast með framvindu fyrirlestraraðarinnar á vefsvæði Vodafone: www.vodafone.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert