45% stunda nær aldrei íþróttir

Svo virðist sem íþróttin Crossfit sé ekki mjög vinsæl meðal …
Svo virðist sem íþróttin Crossfit sé ekki mjög vinsæl meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla hér á landi. AFP

Hlutfall þeirra nemenda í efstu bekkjum grunnskóla sem hreyfa sig mikið hefur aukist hér á landi undanfarin ár en að sama skapi hefur hlutfall þeirra sem hreyfa sig lítið eða ekki neitt einnig aukist.

Þetta kemur fram í skýrslunni Ungt fólk 2014 en í henni eru niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi árið 2014 með samanburði við árin 2000, 2006, 2009 og 2012. Gagnasöfnun fór fram með spurningalistum í febrúarmánuði 2014.

Árið 2000 sögðust 37% nemenda í 10. bekk nær aldrei stunda íþróttir, en 45% árið 2014. Í skýrslunni kemur fram að rannsóknir hafi ítrekað sýnt að börn og ungmenni sem stunda skipulagðar íþróttir reglulega séu líklegri til að líða betur en öðrum börnum og unglingum og eru ólíklegri til að reykja sígarettur.

Þá hefur íþróttaiðkun sérstaklega verndandi áhrif fyrir þá einstaklinga sem búa við erfiðar heimilisaðstæður.

95,6% stunda nær aldrei Crossfit

Hlutfall þátttakenda í íþróttastarfi á vegum íþróttafélaga, fjórum sinnum eða oftar, eykst heldur frá árinu 2009 (32% meðal nemenda í 10. bekk) og hefur aukist mikið frá árinu 2000 (19% meðal nemenda í 10. bekk).

Færri strákar í 8. bekk á landsbyggðinni árið 2014 segjast reyna á sig þannig að þeir mæðist eða svitni fjórum sinnum í viku eða oftar nú (49%) en árið 2012 (54%).  

84,1% nemenda í efstu bekkjum grunnskóla stunda nær aldrei handbolta, 65% stunda nær aldrei fótbolta, 83,8% stunda nær aldrei körfubolta og 91,6% þeirra stunda nær aldrei fimleika. Þá stunda 95,6% þeirra nær aldrei íþróttina Crossfit.

Fleiri telja framtíðina vonlausa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert