Dramatískur sigur í Gettu betur

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi komst í fyrsta skipti í undanúrslit Gettu betur þegar liðið vann sigur á Flensborg í fyrsta þætti keppninnar í sjónvarpi. Flensborg hafði fimm stiga forystu undir lok keppninnar en engu að síður tókst FVA að vinna með einu stigi, 24:23.

Síðasta spurning kvöldsins snerist um brúðakjóla fræga fólksins og átti Flensborg svarréttinn. Keppendum skólans brást bogalistin en lið FVA hafði þá brúðakjólaþekkingu sem til þurfti og lönduðu sigri.

Önnur lið sem keppa munu í sjónvarpi eru lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Garðabæjar, Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans við Hamrahlíð, Menntaskólans í Reykjavík og Kvennaskólans í Reykjavík.

Undanúrslit fara fram dagana 25.febrúar og 4.mars og úrslitakeppnin verður haldin miðvikudaginn 11.mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert