„Ég var ekki að reka banka“

Hannes Smárason í héraðsdómi í dag.
Hannes Smárason í héraðsdómi í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Flest það sem kom út úr þessum banka set ég spurningamerki við,“ sagði Pálmi Haraldsson, sem gjarnan er kenndur við fjárfestingarfélagið Fons, við skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í svokölluðu Sterling-máli. Aðalmeðferð málsins hófst í morgun í málinu en Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt af sérsökum saksóknara fyrir að hafa látið framkvæma 2,87 milljarða króna millifærslu af reikningi í eigu FL Group í Kaupþingi í Lúxemburg á reikning Fons í sama banka í apríl 2005. Pálmi vísaði til þess banka með ummælum sínum.

Einkum er deilt um það hvort millifærslan hafi átt sér stað eða ekki. Ekki liggja fyrir skjöl í málinu frá Kaupþingi í Lúxemburg sem staðfesta að svo hafi verið. Önnur skjöl sem lögð hafa verið fram af ákæruvaldinu benda hins vegar til þess. Þá hafa vitni staðfest að hafa fengið að vita af því eftir á að millifærslan hafi verið framvæmd og síðan verið bakfærð nokkru síðar. Samkvæmt gögnum málsins var upphæðin endurgreidd til FL Group með láni frá Kaupþingi í Lúxemburg til Fons sem Hannes Smárason gekkst í persónulegar ábyrgðir fyrir.

Pálmi sagðist aðspurður hvorki kannast við millifærsluna né að hugmyndir hafi verið uppi um að FL Group tæki þátt í kaupum Fons á lággjaldaflugfélaginu Sterling. Þeir Hannes hefðu ekki rætt neitt slík. Bar hann ennfremur að hann hefði varla þekkt Hannes á umræddum tíma. Spurður af saksóknara um tölvupósta starfsmanna Kaupþings í Lúxemburg þar sem fram kæmi að hugmyndir væru uppi um slíkt samstarf FL Group og Fons sagðist hann ekkert kannast við það. „Hvað menn voru að gera inni í bankanum veit ég ekkert um. Ég var ekki að reka banka.“

Gekk erfiðlega að fá upplýsingar

Meðal þeirra sem komu fyrir héraðsdóm í dag voru fyrrverandi stjórnarmenn í FL Group á þeim tíma sem um ræðir. Enginn þeirra kannaðist við að rætt hafi verið um millifærsluna á stjórnarfundum. Þeir könnuðust heldur ekki við að rætt hafi verið á þeim vettvangi um mögulega þátttöku FL Group í kaupum Fons á Sterling. Fram kom í máli sumra þeirra að vinnubrögðin í kringum millifærsluna hefðu verið óvenjuleg og jafnvel óásættanleg. Hreggviður Jónsson sagði að málið hefði orðið til þess að hann hætti í stjórn FL Group.

Ragnhildur Geirsdóttir, sem tók við starfi forstjóra FL Group, á þessum tíma sagðist ekki hafa verið upplýst um stofnun bankareiknings FL Group í Kaupþingi Lúxemburg og síðan millifærsluna af honum. Erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar um málið. Hannes hafi sagt henni að fjármunirnir væru þarna til reiðu fyrir FL Group. Hún gæti fengið allar upplýsingar hjá bankanum. Þar hafi menn hins vegar borið fyrir sig bankaleynd. Hún hafi verið ósátt við að málinu væri haldið leyndu fyrir sér.

Hannes Smárason í héraðsdómi í dag.
Hannes Smárason í héraðsdómi í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert