Lögbundin þjónusta verði gjaldfrjáls

Lögbundin þjónusta verði gjaldfrjáls og þá sérstaklega sú sem snýr …
Lögbundin þjónusta verði gjaldfrjáls og þá sérstaklega sú sem snýr að börnum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Velferðarvaktin leggur að stjórnvöld tryggi að efnalitlar fjölskyldur og einstaklingar geti nýtt sér þá grunnþjónustu sem boðið er upp á í samfélaginu á  hverjum tíma. Lögbundin þjónusta verði gjaldfrjáls og þá sérstaklega sú sem snýr að börnum. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Velferðarvaktarinnar um stöðu efnalítilla barnafjölskyldna og þeirra sem búa við sára fátækt,  ásamt tillögum til úrbóta. 

Í skýrslunni er ennfremur lagt til að greiða að grunni til ótekjutengdar barnabætur og að auki tryggja barnafjölskyldum, í formi barnatryggingar, tilgreinda lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma.  

Einnig er lagt er til að stjórnvöld skilgreini lágmarksframfærsluviðmið sem miði að því að einstaklingar og fjölskyldur búi ekki við fátækt. Einnig er lagt til að létt verði á útgjöldum efnalítilla fjölskyldna og einstaklinga sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað með ákveðnum aðgerðum.

Þá er lagt til að einstaklingar og fjölskyldur, sem fá fjölþætta þjónustu, eigi sér samhæfingaraðila sem tryggi að samstarf og samþætting eigi sér stað milli ólíkra þjónustukerfa. Loks er lagt til að stjórnvöld feli frjálsum félagasamtökum aukið hlutverk við að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem búa við sára fátækt og að stofnaður verði verkefnasjóður sem gæti styrkt tímabundin verkefni sem frjáls félagasamtök stæðu fyrir í þessu sambandi.

Velferðarvaktin var stofnuð í febrúar árið 2009. Í skipunarbréfi segir að Velferðarvaktinni sé ætlað „...að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna“. Velferðarvaktin skal huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni.

Skýrslan var í gær afhent Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Tillögurnar eru sex talsins og fjalla um barnabætur og barnatryggingar, viðmið um lágmarksframfærslu, húsnæðismál, grunnþjónustu, samhæfingaraðila máls, samvinnu við frjáls félagasamtök og verkefnasjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert