Segja manninn hafa blekkt sig

Upptökurnar átti að nota í stefnumótaþátt sem sýna átti í …
Upptökurnar átti að nota í stefnumótaþátt sem sýna átti í sjónvarpi. Þær voru hins vegar birtar á YouTube. Myndin er úr safni og er ekki af tökunum sem um ræðir. AFP

Myndbönd sem sýna kynferðisleg samskipti kanadísks karlmanns við ungar íslenskar konur hafa vakið mikla athygli. Myndböndin eru hluti af netþáttaröð sem fjallar um stefnumótamenningu í ólíkum löndum og upphaflega fjölluðu í það minnsta sjö myndbönd um stefnumótamenningu Íslands.

Tvö myndbandanna hafa nú verið fjarlægð af YouTube en þau sýndu bæði andlit og nakta líkama íslenskra stúlkna á afar kynferðislegan hátt. Maðurinn segir í samtali við mbl.is að upprunalega hafi staðið til að gera sjónvarpsþátt á sjónvarpsstöðinni Showtime. Það hafi ekki gengið eftir og því hafi efnið verið birt á YouTube.

Í viðtali við Pressuna segir ein stúlknanna að maðurinn hafi blekkt hana þegar hún reyndi fyrir sér sem leikkona í Los Angeles og lofað að myndefnið yrði aðeins notað í sjónvarpsþætti.

Hún segist hafa fengið áfall þegar hún komst að því að myndbandið væri á netinu og að hún hafi margoft haft samband við manninn og beðið hann um að fjarlægja myndbandið.

„Þetta er verra en að vera nauðgað. Ég er bara í rusli yfir þessu, mér finnst ég svo ótrúlega illa svikin. (...) Mér finnst alveg hrikalegt að fólk sé að fá ranghugmyndir um mig og mína persónu.“

Önnur stúlka sem birtist í myndböndunum hefur sömu sögu að segja. Í samtali við mbl.is segist hún einungis hafa samþykkt myndatöku þar sem hún væri fullklædd og að hún hafi aldrei gefið leyfi fyrir því persónulega myndefni sem birt var. Hún segir að sér líði ömurlega vegna myndbandanna og að hún reyni nú að fara lagalegu hliðina við að ná efninu af YouTube.

Segir Íslendinga mótsagnakennda

Blaðamaður mbl.is hafði samband við manninn sem birti og kemur fram í myndböndunum og svaraði hann spurningum blaðamanns skriflega í gegnum Facebook. Hann vildi ekki svara fyrstu spurningum blaðamanns en setti fram staðhæfingar um málið út frá eigin sjónarhorni og svaraði spurningum blaðamanns eftir það. Hér á eftir fylgja helstu atriði samtalsins.

Sagði maðurinn leitt að Showtime hefði hafnað efninu frá honum en að hann hafi ekki viljað sleppa því að birta efnið.

„Skítur skeður eins og maður segir. Þetta er vinnan mín, stelpurnar samþykktu og skrifuðu undir og núna er ég með þetta á netinu.“ 

Svo þér finnst ekki að þú hafir blekkt stúlkurnar?

„Ég er augljóslega niðurbrotinn yfir því hvernig þetta mál hefur þróast. (...) En þær voru þátttakendur í þættinum mínum, ef þú ert að spyrja hvort ég blekkti þær [til að taka þátt] þá væri hægt að segja að sjónvarpsstöðin hafi blekkt mig og að YouTube hafi verið minn næsti valkostur.“

„Ég held að það sem við erum að eiga við hér sé einhverskonar íslensk afneitun. (...) Ég hafði ekki hugmynd um að Íslendingar myndu vera svona mótsagnakenndir í frelsi sínu fyrir klikkuðu magni kynlífs til dægrastyttingar (e. Recreational sex) en samt þessum tepruskap þegar sannleikurinn kemur út.“

Það að vera opin gagnvart því að stunda mikið af kynlífi í einrúmi (e. in private) er varla það sama og að vilja láta birta það fyrir allra augum eða hvað?

„Að segja já við amerískum sjónvarpsþáttum en vita ekki að það muni ná til Íslands er þýðingarlítið litbrigði.

En þú hefur í raun ekki svarað því hvort þú hafir blekkt stúlkurnar.

„Hahaha, þú ert að reyna að blekkja mig.“

Leiddir þú einhverja af stúlkunum í trú um að það sem þær væru að skrifa undir ætti ekki við um persónuleg eða kynferðisleg samskipti við þig?

„Þegar þú skrifar undir samning veistu að [efnið] verður notað einhversstaðar. (...) Þær skammast sín. Við vissum ekki að þetta myndi enda á netinu.“

Vissu þær allar að samningurinn sem þær skrifuðu undir ætti einnig við um þau persónulegu samskipti sem þið áttuð og þá ekki bara þau augnablik þar sem þær voru fullklæddar?

„Já.“

Eftir að hafa lýst yfir vonbrigðum með skort á menningarlegu innihaldi í spurningum blaðamanns batt maðurinn endi á samtalið. Hann bætti því þó við undir lokin að Youtube hafi tekið eitt myndbanna út en að hann hafi tekið hitt út sjálfur. Það myndband var tekið út á meðan á samtali við blaðamann stóð. Segir maðurinn að hann þurfi að endurskoða áætlanir sínar með verkefnið þar sem það sé of sársaukafullt með þessum hætti.

Eins og áður hefur komið fram segir ein stúlknanna að hann hafi ekki fengið leyfi fyrir birtingu þess efnis sem fram kom og að raunar hafi hún aðeins gert munnlegt samkomulag. Hin segist hafa verið blekkt og að samningarnir hafi verið gerðir á fölskum forsendum.

Gæti flokkast undir hefndarklámslögin

Í dag fer fram fyrsta umræða á Alþingi um að bann við hefndarklámi verði fært í lög. Verði frumvarpið að lögum verður öll birting, dreifing eða öflun á klámfengnu efni með aðila sem ekki hefur gefið samþykki sitt ólögleg.

Ekki er tekið fram í lögunum að hefnd þurfi að búa að baki birtingunni til þess að hún sé ólögleg þó svo að frumvarpið sé kennt við slíkt klámefni. Því gæti ofangreint mál flokkast undir slíkt brot. Myndi brot gegn lögunum varða allt að eins árs fangelsi eða tveggja ára fangelsi sé brotið stórfellt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert