Um framtíð fólksins að ræða

Komið er að skulda­dög­um út­gerðamanna í Grímsey.
Komið er að skulda­dög­um út­gerðamanna í Grímsey. mbl.is/ÞÖK

„Svona mál verða aldrei leyst nema með einhvers konar aðkomu stjórnvalda, eins og til dæmis verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri um stöðu mála í Grímsey. Akureyrarkaupstaður og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar vinna að lausn á vandamálum útgerða í Grímsey með aðkomu Byggðastofnunar, en íbúafundi sem halda átti í dag hefur verið aflýst.

Að sögn Eiríks var fundinum meðal annars aflýst vegna þess hve slæmt veðurútlitið er á svæðinu. Þá segir hann bæjaryfirvöld á Akureyri þurfa að ræða betur við hverfisráðið í Grímsey um framkvæmd nýs fundar áður en hann verður haldinn. „En við erum ekki að hætta við að halda fund með íbúum. Hann verður haldinn, það er á hreinu,“ segir hann.

Ekki hefur verið boðaður nýr fundur meðal íbúa eyjarinnar, en að sögn Eiríks verður hann líklega ekki fyrr en eftir 13. febrúar nk., þar sem fulltrúar hverfisráðsins í Grímsey hafa óskað eftir því að hann fari ekki fram fyrr en eftir þorrablót, sem haldið verður þann dag.

Íbúarnir fái að stjórna framhaldinu

Til stóð að fundurinn í dag yrði opinn, en heimamenn hafa lýst yfir áhyggjum sínum, og sagst vilja ræða framtíð búsetu í eynni fjarri kastljósi fjölmiðla. „Heimamenn hafa lýst áhyggjum sínum af því að ef fundurinn verður opinn því viðvera fjölmiðla gæti haft áhrif á umræðuna. Við viljum auðvitað að fundurinn sé sem mest upplýsandi og að íbúar komi. Við viljum ekki útiloka fjölmiðla frá umfjöllun um málefni Grímseyjar, þvert á móti, en íbúarnir hafa áhyggjur af því að umfjöllunin snúist um eitthvað annað en kjarna málsins sem eru atvinnumál í Grímsey.“

Hann segir málið viðkvæmt, enda sé um „framtíð fólksins og byggðar að ræða. Íbúarnir verða að fá að stjórna sér sjálfir og hvernig þeir vilja hafa áhrif á sína eigin framtíð. Við leyfum þeim að stjórna framhaldinu en ráðleggjum þeim eins og við getum.“

Reyna að finna lausnir á vandanum

Komið er að skulda­dög­um út­gerðamanna í eynni við Íslands­banka en afla­heim­ild­ir í eynni voru m.a. keypt­ar með lán­um frá bankan­um og voru þær sett­ar sem veð. Bankinn hef­ur komið til móts við út­gerðar­menn og lengt í lán­un­um.

„Frá því við fengum upplýsingar um þessa erfiðu stöðu síðastliðið sumar höfum við verið að vinna með aðilum sem hafa verið nefndir; Atvinnuþróunarfélaginu, Byggðastofnun og útgerðinni sjálfri og reynt að finna lausnir. Ef þetta væri einfalt þá værum við þegar búin að leysa málið,“ segir Eiríkur, og bendir á að mikilvægt sé að tala við heimamenn og vita hvar þeirra áhyggjur og hugmyndir liggja og hvers eðlis þær eru svo hægt sé að vinna að farsælli lausn.

Opinber stuðningur þarf að koma til

Gríms­ey er eitt tíu sam­fé­laga sem sótt hafa um þátt­töku í verk­efni Byggðastofn­un­ar í svo­kölluðum „brot­hætt­um byggðum.“ Það verk­efni er nú í biðstöðu vegna út­tekt­ar á veg­um at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is og ekki hef­ur verið tek­in ákvörðun um í hvaða röð þess­ir tíu staðir kom­ast að. „Það er verið að skoða hvort og þá hvernig þetta verkefni getur hjálpað Grímseyingum og hugsanlega annar opinber stuðningur,“ segir Eiríkur.

Þá segir hann breytingar á útgerðinni geta haft áhrif á samfélagið í heild. „Fækkun starfa hefur áhrif á íbúaþróun og þar með á þjónustu í eynni svo eitthvað sé nefnt. Þetta er okkar viðfangsefni, en sveitarfélagið stjórnar auðvitað ekki atvinnulífinu í sjálfu sér. Við skoðum aftur á móti núna hvernig við getum komið til aðstoðar.“

Um 90 manns búa í Gríms­ey og er aðal­at­vinnu­veg­ur­inn fisk­veiðar og fisk­verk­un enda stutt á gjöf­ul mið.

Frétt mbl.is: Aflýsa íbúafundi í Grímsey

Frétt mbl.is: „Ekki fjölmiðla að kveða upp dóma“

Frétt mbl.is: „Takið afstöðu gegn ofbeldi“

Frétt mbl.is: Vekur athygli á erfiðri stöðu Grímseyjar

Frétt mbl.is: Kynferðisbrotamál skekur Grímsey

Frétt mbl.is: Borgarafundur í Grímsey

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert