Veðurstofan varar við stormi

Víða um land er hálka og snjóþekja.
Víða um land er hálka og snjóþekja. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Veðurstofan varar við stormi, meira en 20 m/s, norðvestanlands þegar líður á kvöldið, en suðaustantil á morgun.

Næsta sólarhringinn er spáð vestlægri eða breytilegri átt, 5-10 m/s, og stöku éljum. Spáð er  snjókomu með köflum norðan- og norðvestantil. Vaxandi norðaustan átt verður í kvöld, hvassviðri eða stormur um og upp úr miðnætti og snjókoma eða él, en úrkomulítið sunnanlands, hvassast norðvestantil. Sjá nánar á veðurvef mbl.is.

Á Suðvesturlandi og eru hálkublettir á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Hálka er bæði á Hellisheiði og í Þrengslum en víða er snjóþekja á Suðurlandi.

Snjóþekja og hálka er all víða á Vesturlandi. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði en unnið er að mokstri. Hálka er á Bröttubrekku en þar er flutningabíll útaf og tefur opnun og mun einnig tefja umferð fyrst um sinn.

Á Vestfjörðum er víða snjóþekja. Þæfingsfærð er á Kleifaheiði. Þungfært á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en unnið er að mokstri.

Snjóþekja er á vegum á Norðurlandi, einkum á heiðum og útvegum. Þæfingsfærð er á Vatnsskarði og einnig frá Hofsósi að Fljótunum en unnið er að mokstri.

Á norðurlandi Eystra er víða hálka og snjóþekja. Ófært með stórhríð er á Hófaskarði og beðið er með mokstur þar. Hálka er austur yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og á Fagradal en snjóþekja er á Oddskarði. Á Austurlandi er hálka inn til landsins en á köflum snjóþekja með ströndinni.

Nokkur hálka og snjóþekja er einnig á Suðausturlandi og með ströndinni.

Á morgun er spáð norðan 15-23 m/s, hvassast verður suðaustantil. Snjókoma eða él, en þurrt að kalla sunnan- og suðvestantil. Frost 0 til 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert