Verkföll gætu skollið á í mars

Hljóðið í forystu verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þungt eftir að skrifað …
Hljóðið í forystu verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þungt eftir að skrifað var undir samninga við lækna og því ljóst að allt stefnir í mikil átök á vinnumarkaði. AFP

Miðað við fyrstu viðbrögð Samtaka atvinnulífsins (SA) við kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands (SGS) í komandi kjaraviðræðum er nær öruggt að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara.

Hljóðið í forystu verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þungt eftir að skrifað var undir samninga við lækna og því ljóst að allt stefnir í mikil átök á vinnumarkaði. Fjöldi stéttarfélaga er með lausa kjarasamninga, sem renna eiga út í lok febrúar næstkomandi. Annríki verður þar af leiðandi mikið á skrifstofu ríkissáttasemjara í Karphúsinu við Borgartún.

Fari allt á versta veg í kjaraviðræðum verður gripið til verkfallsboðana og miðað við viðræðuáætlanir gætu fyrstu verkföll mögulega skollið á um miðjan marsmánuð.

Nærri 200 samningar lausir

Á síðasta ári var 55 kjarasamningum vísað til sáttasemjara og þar af er aðeins ósamið um tvo þeirra. Á þessu ári eru hátt í 200 kjarasamningar lausir, flestir í lok febrúar á almennum vinnumarkaði en einnig í lok apríl hjá starfsmönnum hins opinbera.

Stærsta stéttarfélag landsins, VR, með um 30 þúsund félagsmenn, er með trúnaðarráðsfund í kvöld þar sem kröfugerð fyrir komandi samninga verður mótuð. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segist reikna með að launaliður kröfugerðarinnar verði tilbúinn á allra næstu dögum. Á fundinum í kvöld verður einnig kynnt viðhorfskönnun meðal félagsmanna, þar sem spurt var hvaða áherslur þeir vildu sjá í næstu samningum.

Spurð út í kröfugerð SGS segir Ólafía hana ekki hafa komið sér á óvart, sér í lagi miðað við umræðuna að undanförnu í kjölfar samninga við lækna.

Mun snúast um réttlæti

Telur Ólafía samhljóm verða með SGS í þeim samtölum sem munu fara fram við félaga VR. „Þau samtöl munu fyrst og fremst snúast um réttlæti,“ segir Ólafía en stærsti hópurinn innan VR er millitekjufólk. Hún segir kröfu innan þess hóps um að hækka í takt við aðra.

Þessa dagana í Karphúsinu eru þrír hópar í viðræðum við Samtök atvinnulífsins, hver í sínu lagi, þ.e. starfsmenn Norðuráls á Grundartanga, tæknimenn hjá Landsneti og tæknimenn hjá Ríkisútvarpinu. Lítið hefur miðað í þeim viðræðum, samkvæmt upplýsingum blaðsins. Sér í lagi er þungt hljóð í starfsmönnum Norðuráls, en um 80% þeirra eru í Verkalýðsfélagi Akraness. Samningar við þá runnu út um áramótin.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, með kröfugerðina undir hendi á leið …
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, með kröfugerðina undir hendi á leið til fundar við Samtök atvinnulífsins ásamt Finnboga Sveinbjörnssyni, formanni Verkalýðsfélags Vestfjarða. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert