Fleira sem sameinar en sundrar

Ragnheiður Elín Árnadótti, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um …
Ragnheiður Elín Árnadótti, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um náttúrupassa á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Skiptar skoðanir eru um gjaldtöku á ferðamannastöðum er fleira sameinar fólk en sundrar í afstöðu til hennar. Hún er nauðsynleg til að vernda náttúru fyrir átroðningi vaxandi fjölda ferðamanna. Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þegar hún mælti fyrir frumvarpi um náttúrupassa á Alþingi nú fyrir hádegi.

Ráðherrann sagði málið hafa verið lengi í undirbúningi og skiptar skoðanir hafi verið um það. Ferðamönnum sem koma til Íslands haldi áfram að fjölga og ljóst sé að uppbygging á innviðum ferðamannastaða hafi ekki haldist í hendur við þá þróun. Ragnheiður Elín sagði að við gætum ekki setið undir því að náttúruna liggi undir skemmdum af þessum völdum aðgerðalaust.

Líta yrði til þess sem sameinaði fólk í afstöðunni til gjaldtöku á ferðamannastöðum. Allir væru sammála um að ekki mætti leyfa náttúrunni að liggja undir skemmdum og að gjaldtaka sé nauðsynleg. Vegna EES-samningsins væri ekki heimilt að mismuna fólki eftir þjóðerni og því þyrftu Íslendingar líka að greiða fyrir passann. Flestir væru einnig sammála um að eðlilegt væri að erlendir ferðamenn greiddu meira því það væri vegna örrar fjölgunar þeirra sem ráðast þyrfti í kostnaðarsamar framkvæmdir. Þannig væri verið að fjölga þátttakendum í íslenskri náttúruvernd.

Náttúrupassinn væri ekki gallalaus frekar en aðrar útfærslur sem nefndar hefðu verið til gjaldtöku á ferðamannastöðum. Það hafi hins vegar verið niðurstaðan að vegnum kostum og göllum að leggja þessa leið til. Sagðist Ragnheiður Elín bjartsýn á að hægt væri að ná niðurstöðu í málinu.

Áætlað er að náttúrupassinn skili 4,5-5 milljörðum króna á fyrstu þremur árum gildistíma hans miðað við spár um fjölda ferðamanna. Búist er við 85-90% teknanna komi frá erlendum ferðamönnum. Íslendingar 18 ára og eldri kaupi passann á 1.500 krónur á þriggja ára fresti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert