Fundið að drætti hjá ríkissaksóknara

Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari.
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur kvað upp dóma í þremur málum í dag þar sem fundið var að drætti sem rekja mátti til embættis ríkissaksóknara. Í öllum málunum þremur var dómurinn óraskaður.

Í fyrsta málinu var karlmaður dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Í dómi Hæstaréttar segir: „Að því verður að gæta að áfrýjunarstefna var sem áður segir gefin út 10. janúar 2014, en fram er komið að Héraðsdómur Reykjavíkur sendi 23. maí sama ár dómsgerðir í málinu til ríkissaksóknara, sem afhenti ekki Hæstarétti málsgögn fyrr en 17. október 2014. Þessi dráttur er aðfinnsluverður.“

Í öðru málinu var karlmaður sýknaður af kröfum ákæruvaldsins sem ákærði hann fyrir vörslur á 11 hreyfimyndum sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Í dómi Hæstaréttar segir: „Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 20. desember 2013 og honum áfrýjað sem fyrr segir 3. janúar 2014. Hinn 16. sama mánaðar staðfesti héraðsdómur endurrit úr þingbók vegna allra þinghalda í málinu, þar á meðal af skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð þess. Eins og áður greinir var þess fyrst krafist af hálfu ákæruvaldsins 23. september 2014 að dómkvaddur yrði matsmaður og hefur sú töf sem á því varð ekki verið skýrð. Þessi óþarfa dráttur á meðferð málsins fyrir Hæstarétti er aðfinnsluverður.“

Og í þriðja málinu var karlmaður dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot. Í dómi Hæstaréttar segir: „Eins og fram kemur í héraðsdómi dróst meðferð máls þessa úr hömlu af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 21. mars 2014 en þá voru liðin rúm þrjú ár frá því brotum ákærða lauk. Hann tilkynnti um áfrýjun héraðsdóms með bréfi sem barst ríkissaksóknara 8. apríl 2014 og fékk ríkissaksóknari sama dag sendar dómsgerðir í málinu frá héraðsdómi með endurritum af skýrslum sem gefnar voru fyrir dómi. Málsgögn bárust á hinn bóginn ekki Hæstarétti fyrr en 16. október 2014. Þegar virt er sú töf sem hafði orðið við meðferð málsins áður en dómur gekk í héraði var enn brýnni ástæða en ella til að rekstur þess færi ekki frekar úr skorðum hvað málshraða varðar. Sá dráttur sem varð á meðferð málsins frá því tilkynnt var um áfrýjun og þar til málsgögn bárust Hæstarétti hefur ekki verið skýrður með haldbærum rökum. Er hann aðfinnsluverður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert