Höfnuðu Joakim Hemmert

Líklega er enginn Joakim Hemmert í þessum hópi fólks.
Líklega er enginn Joakim Hemmert í þessum hópi fólks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannanafnanefnd hefur kveðið upp úrskurð. Íslenskir ríkisborgarar af karlkyni fá ekki að bera nafnið Joakim Hemmert. Heimilt er hins vegar fyrir konur að bera nöfnin Kala, Sivía og Morgunsól og karla að bera nöfnin Sæbjartur og Viðjar.

Hvað varðar eiginnafnið Joakim segir í úrskurði mannanafnanefndar að það geti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem samstafan „oa“ komi ekki fram í íslenskum nöfnum. „Í nöfnum af þessu tagi er samstafan skrifuð ‘óa' samkvæmt venjulegum íslenskum framburði (samanber nafnið Jóakim). Nafnið uppfyllir því ekki að fullu skilyrði mannanafnalaga.“

Þá vísar nefndin til þess að enginn karl beri nafnið Joakim í þjóðskrá og að nafnið komi ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Það teljist því ekki heldur vera hefð fyrir nafninu Joakim.

Um millinafnið Hemmert segir í úrskurði nefndarinnar að nafnið Hemmert hafi verið borið sem ættarnafn en nú beri það enginn í þjóðskrá. Einnig sé eiginnafnið Hemmert á mannanafnskrá sem karlmannsnafn. „Fyrir liggur að millinafnið Hemmert er ekki dregið af íslenskum orðstofnum. Sem millinafn hefur það enga hefð í íslensku máli. Enn fremur hefur nafnið stöðu eiginnafns. Með vísan til þessa er ekki hægt að fallast á beiðni þessa á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.“

Ennfremur hafnaði mannanafnanefnd kvenmannseiginnafninu Elia. Ritháttur nafnsins telst ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem a er ekki ritað á eftir einhljóðinu i. Þá ber engin kona nafnið Elia í þjóðskrá og nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1910. Því teljist ekki vera hefð fyrir nafninu Elia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert