Hríðarveður á Norðausturlandi fram á kvöld

Svona er umhorfs í Oddsskarði þessa stundina.
Svona er umhorfs í Oddsskarði þessa stundina. mynd/Vegagerðin

Það lægir heldur í kvöld um landið vestanvert, en norðaustan- og austanlands er reiknað með hvössum vindi og jafnvel stormi. Hríðarveður á þeim slóðum fram á kvöld, víða með skafrenningi og takmörkuðu skyggni.

Austast á landinu verður hvasst fram á morgundaginn með skafrenningi og éljum að sögn Vegagerðarinnar.

Færð og aðstæður

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi.

Á Vesturlandi  er víða hálka eða snjóþekja en Holtavörðuheiði er þungfær.

Snjóþekja eða hálka, él og skafrenningur er víða á Vestfjörðum. Klettshálsi er ófær, þæfingsfærð er milli Klettsháls og Brjánslækjar og flughált þaðan að Kleifaheiði. Þæfingur er einnig á Þröskuldum. Flughált er í sunnanverðum Steingrímsfirði og inn í Bitru.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og víða skafrenningur, snjókoma eða él. Ófært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en þar er stórhríð.

Ófært er á Fjarðarheiði og Oddskarði en þar er beðið með mokstur vegna veðurs. Á Austurlandi er annars víða snjóþekja og skafrenningur. Hálka er með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður. Óveður er í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert