RÚV leigir Reykjavíkurborg

Útvarpshúsið.
Útvarpshúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg hafa samið um það að Reykjavíkurborg leigi til næstu fimmtán ára allan turn Útvarpshússins við Efstaleiti og hluta af 1. og 2. hæð Útvarpshússins, samtals liðlega 2000 fermetra.

Leigan verður fimm milljónir króna á mánuði, eða 60 milljónir króna á ári. Á núvirði er þetta því samningur upp á 900 milljónir króna, til fimmtán ára. Þetta hefur mbl.is eftir áreiðanlegum heimildum.

Borgarráð samþykkti samninginn við RÚV á fundi sínum í morgun og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, boðaði til starfsmannafundar nú laust eftir kl. 13.00 þar sem hann kynnti starfsmönnum samninginn.

Samkvæmt heimildum mbl.is ríkir ánægja með samninginn hjá yfirstjórn Ríkisútvarpsins, vegna þess að upphaflega hafi einungis verið rætt um að borgin leigði um 1000 fermetra, sem hefði þýtt mun lægri leigutekjur.

Heimildir mbl.is herma að Reykjavíkurborg hyggist setja á fót þjónustumiðstöð fyrir hverfið í húsakynnunum og stefnt sé að því að starfsemin hefjist 1. maí nk. Framkvæmdir vegna breytinga á húsnæðinu munu hefjast nú strax eftir mánaðamót og verði þeim lokið fyrir en áætlað hafi verið, hefji þjónustumiðstöðin starfsemi fyrir 1. maí nk.

Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að borgarráð hafi einnig á fundi sínum í morgun samþykkt skipulagsforsögn vegna lóðar Ríkisútvarpsins, sem RÚV hyggst selja borginni eins og áður hefur komið fram. Þar stendur til að reist verði íbúðabyggð.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert