Sítrónur og matarsódi stoðar ekki gegn krabbameini

Sítrónur er til margra hluta nytsamlegar en krabbameinslækningar eru ekki …
Sítrónur er til margra hluta nytsamlegar en krabbameinslækningar eru ekki einn af þeim. Ásdís Ásgeirsdóttir

Rúmlega 10.000 manns hafa líkað við grein á vefnum Spegill.is þar sem leitt er líkum að því að sítrónur og matarsódi séu margfalt áhrifaríkari en lyfjameðferð gegn krabbameini. Engin stoð er hins vegar fyrir þeim fullyrðingum sem byggjast meðal annars á hugmyndum ítalsks læknis sem var sviptur lækningaleyfi.

Greinin ber titilinn „Sítróna og matarsódi - 10 000 áhrifameiri en lyfjameðferð við krabbameini?" birtist fyrst í febrúar í fyrra en hana má enn finna á forsíðu vefsíðunnar. Fleiri en 10.000 manns hafa nú líkað við hana þar í gegnum Facebook. Þar fjallar Heiða Þórðar, sem titluð er ritstjóri vefsíðunnar Spegill.is, um efni nokkurra vefsíðna sem hún segir að hafi vakið forvitni sína. Því hafi hún ákveðið að deila því „fyrir þá sem vilja prófa eða deila með þeim sem vilja prófa“. Það geri hún hins vegar án þess að taka nokkra ábyrgð á niðurstöðunni.

Í kjölfarið hefur hún eftir þremur vefsíðum að sítrónur séu taldar góður kostur gegn æxlum og blöðrum. Fullyrt sé að hún hafi verið prófuð á allar gerðir krabbameins og samblanda af sítrónu og matarsóda sé ennþá öflugri en lyfjameðferð vegna áhrifa þeirra á sýrustig líkamans.

Tilraun með að láta krabbameinssjúklinga drekka glas af sítrónusafa með teskeið af matarsóda út í hafi sýnt fram á að sítrónan eyði krabbameinsfrumum í tólf mismunandi tegundum meina og komi í veg fyrir meinvörp krabbameinsfrumna auk þess að vera 10.000 sinnum öflugra en lyfið adríamýsín sem valdi hræðilegum aukaverkunum. Þá virki lífrænar sítrónur hundrað sinnum betri en þær sem eru ræktaðar með áburði og öðrum efnum.

„Ef það er staðreynd, hvers vegna er þá þeirri staðreynd haldið leyndri?“ spyr greinarhöfundurinn meðal annars í upphafi hennar.

Dæmdur fyrir fjársvik og mannslát

Á vísindabloggsíðu bresku krabbameinsrannsóknasamtakanna Cancer Research UK er fjallað um þjóðsögur í meðferð krabbameins. Þar eru fullyrðingar um ágæti sítróna og matarsóda við krabbameini hraktar og þær jafnvel sagðar geta verið lífshættulegar. Athygli vekur að engu að síður er ein af heimildunum sem vitnað er til í grein Spegilsins vefsíða þeirra samtaka.

Þar kemur fram að engin gögn bendi til þess að hægt sé að hafa áhrif á sýrustig líkamans með mataræði. Þó það sé vissulega satt að krabbameinsfrumur geti ekki þrifist í of basísku umhverfi þá geti aðrar frumur líkamans það ekki heldur.

Á annarri vefsíðu sem vísað er til í grein Spegilsins, Regenerative Nutrition, er fjallað um matarsódameðferð við krabbameini og meðal annars vísað til ítalska fyrrverandi læknisins Tullio Simoncini. Sá hefur haldið því fram að krabbamein sé í raun viðbrögð líkamans við sveppasýkingu. Hefur hann ráðlagt krabbameinssjúklingum að sprauta matarsóda í meinið. Simoncini missti lækningaleyfi sitt árið 2003 og var sakfelldur fyrir fjársvik og að hafa valdið mannsláti árið 2006, að því er kemur fram á vefsíðu bandarísku krabbameinssamtakanna.

Sú hugmynd að candida-sveppasýking sé orsök krabbameina á hins vegar ekki við nein rök að styðjast, að því er kemur fram hjá bresku krabbameinsrannsóknasamtökunum. Matarsódi sé ekki einu sinni notaður til að meðhöndla hefðbundnar sveppasýkingar, hvað þá krabbamein. Vísbendingar séu þvert á móti til þess að stórir skammtar af matarsóda geti haft alvarlegar og jafnvel banvænar afleiðingar.

Um 10.000 manns hafa líkað við greinina sem birtist á …
Um 10.000 manns hafa líkað við greinina sem birtist á vefsíðunni Spegill.is. Skjáskot af grein á Spegill.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert