Vilja nýtt hótel í Hafnarfjörð

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun var rætt um uppbyggingu hótels í miðbæ Hafnarfjarðar. Fram kom að ætla megi að um 4% þeirra ferðamanna sem gistu á heilsárshótelum á Íslandi árið 2014 hafi gist á þeim tveimur þriggja stjörnu hótelum sem nú er að finna í bænum, Hótel Víking og Hótel Hafnarfirði.

Samkvæmt tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ má gera ráð fyrir að gistinætur á nýju hóteli verði 65 þúsund á ári og að útgjöld viðskiptavina væru þá nálægt 2 milljörðum árlega. Þar af fari um 1,2 milljarðar í gegnum gististaðinn en um 300 milljónir í útgjöld annars staðar í Hafnarfirði og 500 milljónir víðar á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, s.s. í skipulagðar ferðir, veitingahús, eldsneyti, verslun, söfn/sýningar og aðra afþreyingu.

„Kannanir sýna að 15% erlendra ferðamanna sem komu til Íslands sumarið 2014 höfðu einhverja viðdvöl í Hafnarfirði. Þar af gistu rúmlega 3%, í að jafnaði 3,1 nótt, en um 12% komu í dagsferð. Það þýðir að aðeins 20% þeirra sem áttu viðdvöl í bænum gistu þar og þarna er klárlega sóknarfæri,“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert