Vill Hannes í 2-3 ára fangelsi

Hannes Smárason í Héraðsdómi Reykjavíkur,
Hannes Smárason í Héraðsdómi Reykjavíkur, mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sérstakur saksóknari telur hæfilegt að Hannes Smárason verði dæmdur í 2-3 ára fangelsi fyrir fjárdrátt í svokölluðu Sterling-máli en málflutningur í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hannes er ákærður fyrir að hafa án heimildar stjórnenda FL Group látið millifæra fjármuni sem námu 2,87 milljörðum króna af reikningi félagsins í Kaupþing Lúxemburg á reikning eignarhaldsfélagsins Fons 25. apríl 2005. Hannes var þá starfandi stjórnarformaður FL Group.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari sagði Hannesi það til refsilækkunar að mati ákæruvaldsins að FL Group hafi ekki beðið fjártjón þar sem fjármunirnir hafi að lokum skilað sér til baka og að hann hafi þannig ekki hagnast á málinu. Hins vegar hefði falist í því veruleg fjártjórnáhætta fyrir félagið. Þá væri sannað að mati ákæruvaldsins að Hannes hefði með ólögmætum hætti ráðstafað umræddum fjármunum í heimildarleysi og ennfremur haldið upplýsingum um þá ráðstöfun leyndri fyrir stjórnendum og starfsmönnum félagsins.

Málið væri hins vegar nær fordæmalaust. Nefndi Finnur þó mál þar sem bankastarfsmaður hefði verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi óskilorðsbundið fyrir hliðstæðar sakir. Þar hafi umrædd fé einnig skilað sér til baka að lokum. Hugsanlega væri rétt að skilorðsbinda þá refsingu sem saksóknari teldi viðeigandi, 2-3 ára fangelsi, að hluta en þó ekki meira en að helmingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert