Svo þau þurfi ekki að handþvo allan þvott

Haraldur og Hreinn Markar setja hafraklatta í poka og merkja …
Haraldur og Hreinn Markar setja hafraklatta í poka og merkja fyrir fjáröflunarkaffið. Með þeim er Kristín iðjuþjálfi.

Heimilisfólkið hér í Mörk hefur fylgst vel með þegar ég hef verið að segja sögur og fréttir af Eden-heimilinu í Suður-Afríku, þangað sem ég fór í heimsókn. Þegar ég sagði að þau væru að reyna að safna fyrir þvottavél, þá stakk ein heimiliskonan hér upp á því að við tækjum þátt í því með því að halda fjáröflunarkaffi. Við gripum þetta á lofti og síðan hefur allt verið á fullu í undirbúningi. Við höfum gert þetta saman starfsfólkið og heimilisfólkið, þau biðja börnin sín að baka, heimilin taka þátt og vinnuhópur í iðjuþjálfuninni hefur bakað stanslaust undanfarna daga,“ segir Bryndís Hreiðarsdóttir, öldrunarfræðinemi og starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík, en þar verður fjáröflunarkaffið nú á sunnudag.

Dýr og börn velkomin

„Ég fór að vinna hér í Mörk fyrir tveimur árum af því hér er unnið eftir Eden-hugmyndafræðinni, sem mér finnst sérlega áhugaverð stefna. Ég hafði gert verkefni um þessa stefnu í háskólanum þegar ég var að læra mannfræði, en í henni er lögð áhersla á að heimilismenn haldi sjálfræði sínu, aðstandendur eru ávallt velkomnir og hvattir til að taka þátt í daglegu lífi heimilismanna, dýr eru velkomin og reynt að fá börn sem oftast í heimsókn og fleira í þeim dúr,“ segir Bryndís sem frétti af Eden-hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara í Suður-Afríku og skellti sér þangað í heimsókn fyrir einu og hálfu ári, til að kynna sér hvernig þau spiluðu úr sínum aðstæðum, sem eru jú talsvert ólíkar því sem við eigum að venjast á Íslandi.

Eina kona gerði gæfumun

„Ég upplifði að skortur á fjármagni og tíma hamlaði mjög innleiðingu Eden-stefnunar hjá okkur í Mörk, það vantar alltaf eitthvað til að bæta líf heimilisfólksins og líka til að bæta aðstæður starfsfólksins. Einmitt þess vegna fannst mér svo áhugavert að í Suður-Afríku væri rekið Eden-heimili þar sem fjármagn til starfsins er ekki í líkingu við .að sem við þekkjum og mönnun enn minni en hérna heima.“

Ein manneskja getur gert gæfumuninn, það hefur einmitt sannast í St. Antonine-hjúkrunarheimilinu sem Bryndís heimsótti, því konan sem stjórnar því hefur gert ótrúlega miklar breytingar.

„Forstöðukonan Lusia er kaþólsk nunna og þegar hún tók við heimilinu fyrir fimm árum var allt í niðurníðslu. Þá var allt vatn sótt í brunn langt í burtu, en hún hefur markvisst unnið í því að sækja um styrki til byggja upp bæði pípulagnir og leggja rafmagn. Tækjabúnaður er af skornum skammti og það þarf að handþvo öll föt þeirra 60 heimilismanna sem þar búa og líka rúmfötin, handklæðin og fleira. Heimilisfólkið léttir undir með með því að strauja og pressa, en þetta er mikil vinna og þess vegna ætlum við hér í Mörk að safna fyrir þvottavél og þurrkara fyrir þau með þessu fjáröflunarkaffi.“

Foreldrar týndrar kynslóðar

Luisa kemur frá öðru héraði og úr allt annarri menningu en heimilisfólkið sem er Súlúfólk. Hún þurfti að byrja á því að læra inn á þeirra tungumál, siði og venjur.

„Súlufólk af þeirra kynslóð á mjög erfitt í samfélaginu, af því þau eru foreldrar „týndu kynslóðarinnar“, fólksins sem lést úr alnæmi áður en lyf komu til sögunnar. Í menningu þessa fólks er rótgróin hefð fyrir því að fólk hugsi um foreldra sína þegar þeir eldast, en þar sem nánast heil kynslóð hvarf vegna alnæmis, þá á þetta fólk engin fullorðin börn sem geta séð um það á efri árum.“

Áþreifanlegur kærleikur

Bryndís dvaldi í tvær vikur á heimilinu og segir það hafa verið ótrúlega magnaða reynslu.

„Hér heima er ýmsu breytt þegar Eden-stefna er tekin inn, við starfsfólkið klæðumst venjulegum fötum, setjum plöntur inn á stofnunina og gerum umhverfið þar sem heimilisfólkið býr eins heimilislegt og hægt er. Við reynum að brúa bilið á milli okkar starfsfólksins og heimilisfólksins eins og hægt er, við erum öll einn hópur. En úti í Suður-Afríku þar sem ekki voru til peningar til að gera allt heimilislegt á yfirborðinu, þar var áherslan á virðingu og traust á milli starfsfólks og heimilisfólks. Það var mikil nánd og kærleikurinn nánast áþreifanlegur. Einnig var mikil áhersla á valdeflingu, heimilismenn tóku sínar ákvarðanir, þeir tóku þátt í því hvernig heimilið þróaðist, þeir tóku þátt í að ákveða matseðilinn, að ákveða fyrir hvað ætti að sækja um styrki og fleira í þeim dúr. Umhyggja og vilji til að hjálpa var eitt af því fyrsta sem ég tók eftir á heimilinu, bæði meðal heimilisfólks og starfsfólks,“ segir Bryndis og bætir við að mikið sé hægt að læra af þessu fólki í Suður-Afríku og starfinu á heimili þess.

Bryndís og heimiliskona á St. Antonine-hjúkrunarheimilinu í Suður-Afríku. Öllum er …
Bryndís og heimiliskona á St. Antonine-hjúkrunarheimilinu í Suður-Afríku. Öllum er tekið opnum örmum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert