Varast ber Bláa naglann

Jóhannes Valgeir Reynisson, upphafsmaður Bláa naglans með bláan nagla.
Jóhannes Valgeir Reynisson, upphafsmaður Bláa naglans með bláan nagla. mbl.is7Rax

Landlæknisembættið segir mikilvægt að ákvörðun um skimun fyrir ristilkrabbameini sé tekin af heilbrigðisyfirvöldum í samstarfi við þá sérfræðinga sem best þekkja til sjúkdómsins. Próf sem Blái naglinn sendir fimmtugum landsmönnum geti skapað falskt öryggi enda uppfylli það ekki ítrustu kröfur.

Blái naglinn hóf í ársbyrjun að senda öllum landsmönnum sem eiga fimmtugsafmæli á árinu próf til að leita að blóði í hægðum, og á átakið að vera til þriggja ára. 

Á vefsvæði landlæknis segir að embættið fagni umræðu um leit að krabbameini í ristli. Embættið hafi stýrt vinnu ráðgjafahóps heilbrigðisráðherra um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina.

Ráðgjafahópurinn skilaði skýrslu til ráðherra haustið 2008 sem var endurskoðuð í ársbyrjun 2009. Ein af ráðleggingum ráðgjafahópsins var að hefja skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini en á þeim tíma var ekki unnt að setja verkefnið í forgang. Málið sé til skoðunar hjá velferðarráðuneytinu.

„Embættið vill taka það skýrt fram að frumkvæði Bláa naglans uppfyllir ekki ýtrustu kröfur um skimun og það próf sem notað er er ekki fullreynt og getur því skapað falskt öryggi fyrir þátttakendur.

Mikilvægt er að ákvörðun um skimun fyrir ristilkrabbameini sé tekin af heilbrigðisyfirvöldum í samstarfi við þá sérfræðinga sem best þekkja til þessa sjúkdóms,“ segir á vefsvæði landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert