Dósatrommur með fiskroði

Marika Alavera, deildarstjóri og tónlistarkennari í Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit, fletti nýju kennslubókinni Tónlist og Afríka í verkfalli tónlistarkennara og las þar kaflann um hvernig ætti að gera hljóðfæri að afrískum sið.

Hún ákvað að láta hendur standa fram úr ermum og þegar verkfallið leystist fór hún að skoða í kringum sig í skólanum og fann fjölmargar niðursuðudósir sem voru ekkert nýttar, hafði samband við fiskvinnslu og fékk þorskroð gefins. Grunnurinn að afrískum trommum var kominn.

Hún mætti svo í kennslustund og börnin föndruðu trommur með endurnýtanlegum efnum. „Þetta eru trommur af öllum stærðum og gerðum og við fengum marga og skemmtilega hljóma, reyndar hljóma baunadósirnar ekkert sérstaklega,“ segir hún og hlær. „Krökkunum finnst mjög gaman að tromma og kannski vegna þess að þau gerðu þær alveg sjálf. Þau vilja fara með trommurnar heim og það helst í dag en þau fá það ekki fyrr en í vor.“

Ætlaði að stoppa í eitt ár

Marika flutti hingað til lands frá Eistlandi árið 1999 og elti þá eiginmann sinn sem hafði komið ári áður. Hún byrjaði að kenna í Stórutjarnaskóla ári síðar og líkar vel, hún er allavega hætt að hugsa hvenær hún ætli aftur til Eistlands.

„Fyrst ætluðum við að vera í eitt ár en þegar það leið þá ætluðum við að vera eitt ár í viðbót. Þegar það var búið ákváðum við að taka tvö ár en núna erum við alveg hætt að pæla í hvenær við förum. Það er svo gott að búa hér í sveitinni.“

Við Stórutjarnaskóla er kennsla á hljóðfæri fléttuð inn í námskrána og allir krakkarnir eru í kór. Frá fyrsta bekk og upp í þann tíunda. „Við kennum á hljóðfæri á skólatíma, tónmennt er kennd upp í áttunda bekk og það er skylda að vera í kór. Það eru tveir kórar starfræktir hér, einn fyrir yngri einn fyrir og eldri nemendur.

Það er mikil tónlist hérna í sveitinni – við erum að ala börnin upp fyrir þorrablótin. Þau þurfa að kunna að syngja þegar þau fara á blótin,“ segir Marika og skellir upp úr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert