Fleiri íslensk börn segja heimilisofbeldi óviðunandi

25% barna í grunnskólarannsókninni sögðust þekkja einhvern sem orðið hefur …
25% barna í grunnskólarannsókninni sögðust þekkja einhvern sem orðið hefur fyrir heimilisofbeldi. Myndin er sviðsett. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Krakkar allt niður í 4. bekk grunnskóla geta skilgreint hugtakið, heimilisofbeldi, með eigin orðum. Ofbeldi á heimilum hefur ekki áður verið rannsakað út frá sjónarhóli barna og eru niðurstöður birtar í nýlegri bók, Ofbeldi á heimili – Með augum barna, sem á dögunum hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Háskólaútgáfan gefur út, ritstjóri er Guðrún Kristinsdóttir en aðrir höfundar Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir og Steinunn Gestsdóttir, sem allar eru kennarar við Háskóla Íslands.Tveir meistaranemar, Margrét Sveinsdóttir og Nanna Þóra Andrésdóttir, eiga síðan hvor sinn kaflann sem unnir voru upp úr ritgerðum þeirra.

„Bakgrunnur okkar er ólíkur; þarna er grunnskólakennari, sérkennari, sálfræðingur og félagsráðgjafi og allar gátum við lagt í púkk í stað þess að vinna hver í sínu horni,“ sagði Guðrún ritstjóri þegar blaðamaður ræddi við þær Margréti Ólafsdóttur.

Í bókinni er skýrt frá þremur ólíkum rannsóknum. „Þá fyrstu gerðum við fyrir nokkrum árum, þegar við fórum í marga grunnskóla og lögðum spurningalista fyrir 1.100 börn, til að kanna hvað þau vissu almennt um heimilisofbeldi. Seinna fór fram viðtalsrannsókn þar sem rætt var við 13 börn og mæður þeirra, sem höfðu búið við heimilisofbeldi, þar sem við settum það sem skilyrði að ofbeldinu væri lokið þegar viðtölin fóru fram, til að setja þau ekki í meiri hættu,“ sagði Guðrún.

Þriðji hlutinn var athugun á því hvað íslensk dagblöð og eitt vikurit höfðu skrifað um heimilisofbeldi. Í ljós kom að lítið hafði verið skrifað um börn og aðstæður þeirra í þessu sambandi. Fjallað er um það í kaflanum Hið ósýnilega barn.

Þrjú ár var skemmsti tíminn sem kona, sem rætt var við, hafði búið við heimilisofbeldi „en sú sem bjó við það lengst af öllum áttaði sig loksins og leitaði sér aðstoðar eftir 26 ára ofbeldi“, segir Margrét.

Einnig var rætt við börn á aldrinum níu til 19 ára, sem orðið höfðu fyrir ofbeldi á heimili.

Rannsóknin á sér breska fyrirmynd og samanburðartölur eru fyrir hendi þaðan. Mun hærra hlutfall íslenskra barna telur heimilisofbeldi algjörlega óviðunandi, að sögn Margrétar og Guðrúnar.

„Við vildum ekki spyrja börnin, í grunnskólarannsókninni, hvort þau hefðu sjálf orðið fyrir ofbeldi á heimilinu en 25% sögðust, þegar spurt var, þekkja einhvern sem hefði orðið fyrir heimilisofbeldi,“ segir Guðrún. Hún segir viðtöl við börnin 13, sem búið höfðu við heimilisofbeldi, mjög gagnleg og lengsti kafli bókarinnar byggist á þeim. „Þar er dregið mjög skýrt fram við hve margvíslegt ofbeldi þau bjuggu; börnin sögðu okkur frá mjög þekktu formi ofbeldis en líka frá því sem nánast hefur verið óþekkt.“

Lestu meira um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert