Bílaleigubílar fjórfalt dýrari í Keflavík en Kaupmannahöfn

Keflavíkurflugvöllur sker sig rækilega úr.
Keflavíkurflugvöllur sker sig rækilega úr. Túristi.is

Í könnun sem vefsíðan Túristi.is gerði á verði bílaleigubíla í sumar kemur í ljós að langdýrast er að leigja bíl á Keflavíkurflugvelli.

Meðalverð á bílaleigubíl í einn dag er tæpar 9.000 krónur á Keflavíkurflugvelli, en um 2.000 krónur í Kaupmannahöfn. Næstdýrasti bílaleigubíllinn er í Osló, en þar kostar hann um það bil 5.500 krónur á dag.

Á vef túrista segir að „ferðamaður sem bókar núna bílaleigubíl í tvær vikur hér á landi í júní, júlí eða ágúst borgar að jafnaði um 122 þúsund krónur fyrir fólksbíl af minnstu gerð í fjórtán daga. Sambærilegur bíll kostar tæplega 29 þúsund á bílaleigunum við flugstöðina í Kaupmannahöfn, 42 þúsund í Barcelona, 46 þúsund í Frankfurt en 77 þúsund í Ósló eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan“.

Á vefnum segir einnig að notast hafi verið við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist.

Sjá nánar á vefnum Túristi.is, þar sem meðal annars má sjá leiguverð eftir mánuðum í 20 vinsælum ferðamannaborgum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert