Nálu-stund á Þjóðminjasafninu

Klukkan 14 í dag verður barnastund í Þjóðminjasafninu. Eva Þengilsdóttir mun lesa úr bók sinni Nálu en á Torginu stendur nú yfir sýning sem byggist á bókinni. Að upplestri loknum gefst börnum og forráðamönnum færi á að fara í nýjan ratleik um safnið sem einnig tengist Nálu en sjónum þátttakenda er beint að beinagrindum, sverðum og riddaramyndum í Þjóðminjasafninu. Barnastundin er gestum að kostnaðarlausu og allir velkomnir.

Bókin Nála kom út hjá Sölku í október 2014 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka. Sýningin á Torgi er gagnvirk og þátttaka gesta gerir það að verkum að hún breytist dag frá degi. Sýningargestir eru hvattir til að skapa og hafa þannig áhrif á sýninguna í gegnum mynsturgerð og saum. Ásgarður handverkstæði hefur unnið kubba og fleiri hluti fyrir sýninguna en einnig verður hægt að hlusta á upplestur úr bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert