Þjóðlegur rokkari og sópran á nýjum slóðum

Appassionata sýningin og Arndís Halla.
Appassionata sýningin og Arndís Halla.

Söngkonan Arndís Halla Ásgeirsdóttir hefur komið víða við á glæstum ferli. Hún bjó í 18 ár í Berlín og hefur sungið fyrir milljónir. Hún er komin heim og hefur skapað sinn eigin tónlistarstíl sem kemur vel út í samstarfi hennar og ljósmyndarans Emils Þórs Sigurðssonar sem tvinna saman íslenskt landslag, söng og tónlist. Arndís Halla er trú eigin uppruna þrátt fyrir fjölda ára á erlendri grundu.

Á flennistórum leikvangi, frammi fyrir þúsundum áhorfenda stóð Arndís Halla dag einn árið 2011 og söng verk eftir sjálfa sig. Flutningurinn var ekki frábrugðinn flutningi hennar aðra daga síðustu níu árin með Appassionata-hópnum nema að því leyti að Arndís Halla hugsaði með sér að hana langaði heim. Heim til Íslands. „Ég kom hingað heim með þá ákvörðun að ég ætlaði að hætta að syngja,“ segir Arndís Halla sem á þeim tímapunkti hafði verið á stöðugri keyrslu í á annan áratug. Úr varð að hún skipti um starfsvettvang en hún er sannarlega ekki hætt að syngja. Síður en svo.

Emil kemur til sögunnar

Skömmu fyrir jólin kom út geisladiskurinn Ístónar – fyrr og nú – með Arndísi Höllu. Uppsetningin er óhefðbundin því bæði er um ljósmyndabók að ræða og geisladisk. Síður bókarinnar eru prýddar fögrum landslagsljósmyndum eftir Emil Þór Sigurðsson auk texta við lögin á disknum á þremur tungumálum. Í raun kristallast í þessum diski og bók það sem þau Arndís Halla og Emil Þór hafa unnið að í sameiningu síðustu ár. „Margir ferðamenn sem hafa verið hér og tekið fjölda mynda hafa spurt mig hvaða tónlist myndi henta til að setja undir myndasýningu eða „slide show“ hjá sér,“ segir Arndís Halla og má segja að diskurinn sé byggður upp á svipaðan hátt. Ljósmyndirnar og tónlistin kallast í raun á. Samstarf ljósmyndarans og tónlistarkonunnar hófst árið 2010. „Þetta byrjaði þannig að Emil hafði samband við mig þegar ég bjó enn í Þýskalandi. Hann hafði verið að vinna í myndunum sínum og heyrt tónlistina mína í útvarpinu og honum fannst myndirnar og tónlistin renna saman. Hann hringdi í mig út og sendi mér líka smá hugmynd að svona myndasýningu með myndunum hans og tónlistinni minni,“ segir Arndís Halla sem fannst hugmyndin góð. „Úr þessu varð svo svakalega stór og mikil bók sem heitir Fagurt er frelsið og samanstóð af landslagsmyndunum hans Emils, geisladiski með tónlistinni minni og DVD-diski með slideshowi

með myndum, tónlist og ljóðlist. Við gáfum þetta út árið 2011 og komumst inn á bókamessuna í Frankfurt sama ár. Eftir það vorum við bara „bestseller“ á Amazon í Þýskalandi í tæp tvö ár á eftir.“

Landið kynnt fyrir gestum

Það var því vel við hæfi að fylgja bókinni eftir með Ístónum. Arndís Halla hefur unnið sem leiðsögumaður að undanförnu og kann því vel að kynna land og þjóð fyrir erlendum gestum. Söngurinn spilar þar hlutverk með skemmtilegum hætti. „Árið 2012 fórum við Emil að vera með menningarkvöld, aðallega fyrir ferðamenn. Við erum með þetta bæði á þýsku og ensku. Í svona einn og hálfan tíma er maður að segja, bæði á léttan og skemmtilegan hátt, frá landi og þjóð en við erum líka með myndir og í lokin er ég með dálitla tónleika,“ segir hún, en menningarkvöldin fara fljótlega aftur á skrið. Þau hafa líka haldið menningarkvöld erlendis og fóru í haust til Þýskalands, bæði í Berlín og Bonn þar sem þeim var vel tekið. Þannig að Arndís Halla er hvergi nærri hætt að syngja þó hún hafi skipt um starfsvettvang.

Hún segist hafa verið lánsöm á þeim átján árum sem hún bjó í Berlín og er þakklát fyrir þau ævintýri sem hrifu hana með sér. „Ég fór út til að læra söng og ætlaði bara að klára háskólann og koma til baka. Svo var ég svo lánsöm að fá strax mikið að gera og líkaði mjög vel úti í Þýskalandi,“ segir Arndís Halla.

Hestar, dansarar og dívur

Þegar Arndís Halla er spurð út í stærstu verkefnin sín úti í Þýskalandi nefnir hún þrjú. „Ég fór tiltölulega snemma að syngja í stóru óperuhúsunum úti og var eiginlega bara ungi, svona söngkonulega séð, þegar ég fékk fastráðningu í Komische Oper í Berlín,“ segir hún. Á meðal eftirminnilegra uppfærslna þar eru Fidelio eftir Beethoven þar sem hún fór með hlutverk Marzeline og Orfeus í Undirheimum eftir Offenbach. Þá fór Arndís Halla með hlutverk gyðjunnar Díönu. „Þá var nefnilega Hanna Dóra Sturludóttir söngkona líka í verkinu. Það var rosalega gaman því við höfðum verið að læra söng á sama tíma í Söngskólanum og svo sungum við saman þarna. Við höfum sungið heilmikið saman síðan en þarna vorum við báðar að skottast,“ segir Arndís Halla og ljóst er af raddblænum að þetta tímabil hefur verið mjög ánægjulegt.

Appassionata-sýningin er þó án efa stærsta verkefni Arndísar Höllu erlendis. Það er ein stærsta farandsýningin í Evrópu. „Upprunalega var þetta hestasýning í Þýskalandi en einhverjir Þjóðverjar keyptu hana og breyttu henni og poppuðu hana svakalega upp. Í staðinn fyrir að hafa hestasýningu gerðu þeir úr henni listræna skemmtisýningu með sirkusívafi,“ segir Arndís Halla. Í sýningunni, Appassionata, eru um fimmtíu hestar, þrjátíu og fimm knapar og um hundrað og tuttugu manns sem vinna að sýningunni þar fyrir utan. „Þar var ég í níu ár og var ráðin þangað sem aðalsöngkona sýningarinnar, sem díva sýningarinnar. Svo fékk ég að semja bæði lög og texta og var í tónlistarteymi hópsins. Þetta var svakalega skemmtilegt og við þvældumst um allt Þýskaland og Evrópu,“ segir hún. Á hverju ári var sett upp ný sýning og farið á flakk með hana. Eins og hægt er að gera sér í hugarlund var álagið gríðarlegt og áskoranirnar miklar. Æfingar á nýju verki hófust í lok október hvert ár og var það svo sýnt fram í júní. „Maður bjó nú bara í ferðatösku. Það var ný borg um hverja helgi, jafnvel í nýju landi, allan veturinn í marga mánuði. Þetta var svolítið mikið,“ segir hún.

Rokkarinn líka endurvakinn

Það var á þessum árum, árunum í Appassionata, sem Arndís Halla fór að móta sína eigin tónlistarstefnu með því að fylgja hrynjandi hjartans. „Ég elskaði auðvitað óperuna en áður en ég fór í óperuna var ég rokkari og poppari og var í einhverjum hard-rock hljómsveitum og svona sem gelgja og það var rosalega gaman. En þarna fékk ég tækifæri til þess að búa mér til mína eigin tónlistarstefnu sem er svona cross-over tónlist sem er byggð á klassík sem ég blanda við aðrar tónlistarstefnur og hef alltaf reynt að hafa einhvers staðar smá lit af Íslandi inní. Ég lét bara vaða í sýningunni og söng stundum á íslensku eða byggði inn í lögin fimmundir sem eru dæmigerðar fyrir íslensk þjóðlög,“ segir söngkonan Arndís Halla Ásgeirsdóttir sem er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir við hvers kyns listsköpun fyrir skilningarvitin. Þess má til gamans geta að á nýútkominni plötu trommar þýska þungarokksveitin Corvus Corax undir í Krummavísum og er sú blöndun skemmtilegt dæmi um fjölbreytnina í tónlistarstefnu Arndísar Höllu. Nánari upplýsingar, myndir og tóndæmi er að finna á vefsíðunni arndishalla.is

Arndís Halla Ásgeirsdóttir og Emil Þór Sigurðsson.
Arndís Halla Ásgeirsdóttir og Emil Þór Sigurðsson. mbl.is/Rax
Arndís Halla og þýsk þungarokksveit.
Arndís Halla og þýsk þungarokksveit.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert