Veganúar slær í gegn á Íslandi

Lífsstíll grænmetisæta nýtur sífellt aukinna vinsælda hér á landi.
Lífsstíll grænmetisæta nýtur sífellt aukinna vinsælda hér á landi. mbl.is/Ómar

Átakinu Veganúar lauk nú um mánaðamótin en markmið þess er að draga úr þjáningu dýra með því að hvetja fólk til að gerast vegan í einn mánuð. Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir, formaður fræðslu- og fjölmiðlahóps Samtaka grænmetisæta, segir átakið hafa gengið framar vonum.

„Veganúar hlaut góðar og miklar viðtökur og fjölmargir tóku þátt þótt við séum ekki með töluna á hreinu. Höfum séð það á umræðum sem skapast hafa á netinu að fólki hefur líkað þetta mjög vel og einhverjir ætla að gerast vegan í kjölfarið. Þá hafa aðrir sagst ætla að nýta grænmetisrétti meira í sínu mataræði,“ segir Sæunn, en þetta er í fyrsta skiptið sem Veganúar er haldinn á Íslandi.

„Þetta hófst á síðasta ári í Bretlandi og hefur breiðst út um heiminn líkt og eldur í sinu. Nú fengum við reynslu á þetta hér heima og munum án vafa gera þetta aftur á næsta ári,“ segir Sæunn og bætir við: „Janúar þótti besti tími ársins til að skora á fólk enda margir með ýmis áramótaheit um þetta leyti. Þetta framtak virðist enda hafa hitt beint í mark.“

Samtök grænmetisæta á Íslandi telja nú 150 félagsmenn og segir Sæunn að félagið finni fyrir mun meiri áhuga á lífsstíl grænmetisæta en áður. „Við finnum fyrir mun meiri jákvæðni og fólk er opnara fyrir þessu. Það er aukinn skilningur og umburðarlyndi í samfélaginu þannig að þetta er að breytast hratt til hins betra. Þó að 150 manns séu í félaginu þá eru á fjórða þúsund manns sem taka þátt í umræðuhópum um málefnið.“

Samtökin hafa opnað nýja síðu sem Sæunn segir eiga að gagnast öllum sem stunda þennan lífsstíl að einhverju marki. „Þar erum við með upplýsingar fyrir grænmetisætur, jafnt fyrir byrjendur og þá sem eru lengra komnir. Enn fremur erum við með hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem þjónusta grænmetisætur svo sem veitingastaði og framleiðendur matvara. Síðan á að gegna hlutverki alhliða upplýsingabanka og mun bara fara vaxandi.“

Síða Samtaka grænmetisæta á Íslandi.

Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir, formaður fræðslu- og fjölmiðlahóps Samtaka grænmetisæta.
Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir, formaður fræðslu- og fjölmiðlahóps Samtaka grænmetisæta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert