Allur hópurinn á leið til byggða

Mynd úr safni björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri.
Mynd úr safni björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri. Vefur björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri

Ferðafólkið og björgunarsveitarmenn eru á leið til byggða niður Bárðardalinn en sjö manns á þremur jeppum lentu í erfiðleikum á hálendinu í gær og fóru björgunarsveitarmenn að sækja hópinn í nótt. Ekkert amar að fólkinu og tókst að losa jeppa þeirra sem sátu fastir skammt frá Laugafelli, samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn björgunarsveita á Akureyri.

Þriðji jeppinn, sem bilaði í ferðinni, er í togi á leið til byggða þannig að ekki þarf að skilja nein ökutæki eftir uppi á hálendinu. Ekki er ljóst hvort snjóbíll frá Súlum á Akureyri kemur niður Bárðardalinn eða fer niður á Öxnadalsheiði. Stefnan er tekin á Akureyri en ferðahópurinn, fimm fullorðnir og tvö börn, er að sunnan.

Björgunarsveitirnar Súlur, Dalbjörg og Þingey tóku þátt í aðgerðunum sem hófust á níunda tímanum í gærkvöldi. Fólkið, sem leitaði eftir aðstoð björgunarsveita í gærkvöldi, var á þremur jeppum. Þau lentu í vandræðum um 5 km austan við Laugafell. Færið var afar þungt á þessum slóðum og urðu ferðalangarnir eldsneytislitlir af þeim sökum auk þess sem einn bíllinn bilaði.

Fjórir bílar voru sendir af stað í gærkvöldi en þar sem færið var mjög erfitt var ákveðið að senda einnig snjóbíl frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri. Ferð björgunarsveita sóttist hægt, einn bíllinn heltist úr lestinni vegna bilana, en snjóbíllinn kom að ferðalöngunum um klukkan hálfátta í morgun, að því er segir á vef Landsbjargar.

Komnir til hópsins á hálendinu

Bjarga sjö manns af hálendinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert