Bjarga sjö manns af hálendinu

Mynd úr safni björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri.
Mynd úr safni björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri. Vefur björgunarsveitarinnar Súlur á Akureyri

Viðamikil björgunaraðgerð hefur staðið yfir síðan í gærkvöldi fyrir norðan en björgunarsveitarmenn eru á leið upp á hálendið til þess að bjarga sjö manns, þar af tveimur börnum, sem voru á ferð norðaustur af Laugafelli fyrir ofan Eyjafjörð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er fólkið, allt Íslendingar, á ferð á þremur jeppum. Einn þeirra bilaði og hinir tveir sitja fastir. Síðast náðist samband við hópinn skömmu fyrir miðnætti en þá héldu þau til í bílunum tveimur sem sitja fastir og var annar þeirra nánast eldsneytislaus og er væntanlega orðinn það núna. Reynt var að fara á þyrlu í gærkvöldi til að bjarga börnunum, þriggja og níu ára, ásamt aðstandendum en þyrlan þurfti frá að hverfa vegna slæms skyggnis. Um var að ræða þyrlu sem var stödd á Norðurlandi vegna annarra erinda.

Farið var af stað á tveimur björgunarsveitarbílum upp Sölvadal, innst í Eyjafirði, í gærkvöldi en þar brotnaði drifið á öðrum björgunarsveitarbílnum. Því var brugðið á það ráð að senda snjóbíl upp Öxnadal og inn Kaldbaksdal og miðar honum ágætlega í átt að fólkinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verða björgunarsveitarmennirnir á snjóbílnum væntanlega komnir til ferðafólksins á áttunda tímanum. Jafnframt eru björgunarsveitarmenn á þremur björgunartækjum á leið upp Bárðardal þannig að alls eru átta björgunarsveitarmenn á fjórum björgunartækjum á leið til fólksins auk þess sem tveir björgunarsveitarmenn eru í stjórnstöð og lögreglan á Akureyri tekur einnig þátt í stjórn aðgerða. 

Vitað er um nákvæma staðsetningu á ferðahópnum en ekki hver líðan þeirra er nákvæmlega þar sem afar slæmt símasamband er á þessum slóðum og þarf fólkið að ganga töluverða leið frá bílunum tveimur (þau urðu að skilja þann þriðja eftir bilaðan) til þess að komast í símasamband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert