Alþjóðasinnaðir hægrimenn heimilislausir

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnmála- eða þingflokk skortir sem talar fyrir sjónarmiðum hægrisinnaðra Íslendinga en hafa líka trú á alþjóðasamstarfi. Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Sagði hann alþjóðasinnaða hægrimenn vera algerlega heimilislausa. 

Til að endurvekja traust fólks á Alþingi sagði Helgi nauðsynlegt að stjórnmálamenn færu að þjóðarvilja og stæðu við loforð sem þær gæfu. Þannig væru löngu kominn tími til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins stæðu við loforð sem þeir gáfu í öllum kjördæmum fyrir kosningar um að fólk fengi að greiða atkvæði um framhald aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Ný skoðanakönnun sýndi enn einu sinni fram á að meirihluti landsmanna væri andsnúinn því að umsóknin yrði dregin til baka eins og stjórnarflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir ætli að gera. Könnun sem Helgi vísaði til var gerð af Capacent fyrir Já Íslandi og sýndi að 53% landsmanna væri á móti því að draga umsóknina til baka.

„Það hlýtur líka að vera orðið umhugsunarefni í íslenskum stjórnmálum þegar menn sjá að þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins er andvígur fyrirætlunum formanns hans, Bjarna Benediktssonar, hvort að alþjóðasinnaðir hægrimenn séu algerlega orðnir heimilislausir. Að hér á Alþingi skorti algerlega stjórnmálaflokk eða þingflokk sem tali fyrir sjónarmiðum þeirra fjölmörgu Íslendinga sem eru jú hægrimenn en hafa líka trú á alþjóðsamstarfi, á því að efla viðskiptatengsl okkar og samstarf við aðrar vestrænar þjóðir. Er nema von að spurt sé?“ spurði Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert