Deila um hvert málið á að fara

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Umræður standa nú yfir á Alþingi um hvaða nefnd skuli fjalla um frumvarp um náttúrupassa. Þegar fyrstu umræðu um frumvarpið var að ljúka ljáði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, máls á því að hún hefði ekki ákveðið til hvaða nefndar málið ætti að fara, en gert hafði verið ráð fyrir að málið færi til atvinnuveganefndar.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði nefndarmenn hafa gert ráð fyrir að málið færi í atvinnuveganefnd, og lagði til að sú yrði niðurstaða málsins. Hann sagði fordæmi fyrir því að nefndin fjallaði um mál af þessum toga.

Í andsvari sagðist ráðherra sjálf hafa gert ráð fyrir því að frumvarpið færi til atvinnuveganefndar, en sagðist hafa farið að velta málinu fyrir sér undir umræðum. Hún sagði að færa mætti rök fyrir því að frumvarpið færi til þriggja nefnda; atvinnuveganefndar, umhverfis- og samgöngunefndar og efnahags- og skattanefndar.

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar, spurði hvaða fjallabaksleið ráðherra hefði valið að fara. „Ég átti á ýmsu von eftir þessa umræðu en ekki þessu,“ sagði hann. Fordæmdi hann að ráðherra veldi að hefja umræður um til hvaða nefndar frumvarpið ætti að fara, eftir að þingmenn væru búnir með ræðutíma sinn við fyrstu umræðu.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, hafa einnig gagnrýnt umræðuna. Sagði Róbert engu líkara en að máta ætti málið við nefndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert