Enduruppbyggir kynfæri umskorinna kvenna

Hannes Sigurjónsson, sérnámslæknir á lýtadeild Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi.
Hannes Sigurjónsson, sérnámslæknir á lýtadeild Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Íslenski læknirinn Hannes Sigurjónsson hefur framkvæmt fyrstu aðgerðirnar í læknasögu Svíþjóðar til að enduruppbyggja snípa á stúlkum sem hafa verið umskornar. Hannes er sérnámslæknir á lýtadeild Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, en hann er hluti af þverfaglegu teymi lýtalækna, kvensjúkdómalækna, sálfræðinga og kynfræðinga sem hjálpa konum sem hafa verið umskornar til að fá heildræna meðferð.

Umskurður kvenna (e. female genital mutilation) er gríðarlega stórt vandamál í heiminum í dag, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) hefur metið að yfir 133 milljónir kvenna í heiminum séu umskornar. Þá eru 3,6 milljónir stúlkna umskornar á hverju ári, eða ein stúlka á 15 sekúndna fresti.

Hátt hlutfall umskorinna kvenna í Svíþjóð

Þá er talið að um 38 þúsund konur í Svíþjóð, eða um 400 konur á hverja 100 þúsund íbúa, hafi verið umskornar. Þar af eru um sjö þúsund undir 18 ára. „Svíþjóð er sérstök að því leyti að fólksfjöldi frá löndum sem stunda umskurð stúlkna er mjög hár miðað við höfðatölu. Sama tala er til að mynda um 100-150 umskornar konur á hverja 100.000 íbúa í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi.“ segir Hannes í samtali við mbl.is, en Svíþjóð hefur verið mjög opið fyrir flóttamönnum, til að mynda frá ríkjum í Austur-Afríku þar sem um 80-98% kvenna eru umskornar.

„Auk þess er talið að um nítján þúsund stúlkur sem búa í Svíþjóð núna eigi á hættu að verða umskornar, annað hvort í Svíþjóð eða þegar þær fara í frí til heimalanda sinna,“ segir Hannes, en umskurður kvenna er ólöglegur í Svíþjóð, og auk þess er ólöglegt að skipuleggja umskurð.

Hannes segir að við umskurð sé snípurinn í raun ekki fjarlægður í heild sinni, heldur einungis fremsti hluti hans. Aðgerðin felur í sér að fjarlæga örvef, finna snípskaftið og færa snípinn framar. „Snípurinn er langt líffæri eða um sjö til tíu sentímetrar. Þar af leiðandi er hægt, með mjög nákvæmri tækni, að losa hann frá lífbeininu og sauma hann á sinn stað aftur. Ef nóg er af húð og vef er einnig hægt að endurskapa innri skapabarmana.“

Líta á snípinn sem óhreinan hlut

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO), UNICEF og Sameinuðu þjóðirnar hafa unnið mikið gegn umskurði kvenna, og þá sérstaklega í Afríku þar sem það tíðkast hvað mest. Að sögn Hannesar er umskurður kvenna einungis menningarlegs eðlis en ekki trúarlegs, enda tíðkist það í bæði múslímskum og kristilegum samfélögum. „Það er ekkert í kóraninum eða biblíunni sem segir að stúlkur eigi að vera umskornar. Þetta er gríðarlega rótgróið í ýmsum samfélögum þar sem talið er að stúlkur verði að vera umskornar til að vera gjaldgengar á hjúskaparmarkaðnum.“

Þá segir hann umskurðinn vera af sumum talin leið til að vernda meydóminn, og jafnframt sé litið á snípinn sem óhreinan hlut sem ekki eigi að vera hluti af kynfærum kvenna og að umskurður sé notaður til að bæla konur niður sem kynverur.

Nýlega kom út skýrsla frá WHO þar sem fram kom að með áframhaldandi fyrirbyggjandi vinnu í Afríku og þeim löndum þar sem umskurður tíðkast verði með tilheyrandi fólksfjölgun um 200 milljónir stúlkna umskornar árið 2050. Ef ekkert verður hins vegar gert er sú tala áætluð verða 300 milljónir.

Snípur, innri og ytri barmar skornir af í grófustu dæmunum

Algengast er að stúlkur séu á aldrinum þriggja til tíu ára þegar þær eru umskornar en það tíðkast einnig að stúlkur séu umskornar nokkurra vikna gamlar. Misjafnt er hversu mikið er skorið af kynfærum stúlknanna, en að sögn Hannesar eru grófustu dæmin þannig að snípur, innri og ytri skapabarmar hafa verið skornir af og saumað hefur verið saman. Er þá aðeins skilið eftir lítið gat svo stúlkurnar geti pissað.

„Það eru ýmis vandamál tengd þessu. Það getur myndast örvefur og stúlkurnar geta átt erfitt með að pissa. Þá getur þvag og tíðablóð jafnvel safnast fyrir innan lokaða skaparbarma og valdið alvarlegum sjúkdómum og jafnvel dauða. Auk þess er mun meiri hætta fyrir þessar stúlkur á því að lenda í langdreginni fæðingu, sem getur valdið því að fæðingarvegurinn rifni eða að það myndist fistill milli legganga og ristils eða legganga og þvagblöðru. Loks eru þær í mun meiri hættu á því að fá ýmsar sýkingar, til dæmis þvagfærasýkingar.“

Andlegu áhrifin einnig gríðarleg

Að sögn Hannesar eru fylgikvillar umskurðar gríðarlega fjölþættir og alvarlegir. Hann segir ákveðinn hluta þessara stúlkna deyja við umskurð, en við umskurð getur stúlkum hreinlega blætt út, eða þær fengið alvarlega sýkingu. 

„Þegar þetta er gert eru oft notuð gömul rakvélarblöð eða gömul skæri og oft er þetta gert í athöfn þar sem margar stúlkur eru umskornar í einu. Þetta getur aukið hættu á heilsufarsspjöllum gríðarlega, þar sem veirusýkingar eins og HIV eða lifrabólga geta auðveldlega smitast.“

Þá segir hann langtímahættuna jafnframt mikla, en margar konur sem hafa verið umskornar finna fyrir miklum sársauka í kynfærum og geta átt erfitt með að stunda kynlíf og fá fullnægingu. „Auk þess verða stúlkur fyrir miklu áfalli við þetta og geta í kjölfarið fengið áfallastreituröskun,“ útskýrir Hannes.

Vonast til þess að sambærileg teymi verði sett saman á Norðurlöndunum

Hannes segir uppbyggingaraðgerðina frekar nýja af nálinni í heiminum, og því sé þörf á frekari rannsóknum. „Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar styðja það að eftir enduruppbyggingu á snípnum og fjarlægingu á örvef sýna fram á að konurnar upplifa minni sársauka í kynfærunum, eiga auðveldara með samfarir og geta frekar fengið fullnægingu. Þá finnst þeim þær hafa aukið sjálfstraust og að hafa endurheimt það sem var tekið frá þeim með ofbeldi. Þær upplifa sig endurskapaðar.“

Þverfaglegi hópurinn í Svíþjóð kom fyrst saman í haust, en aðferðin þróaðist fyrst í Frakklandi þar sem Hannes lærði aðferðina. Þar hafa 4.700 þúsund konur hafa farið í gegnum slíka aðgerð eftir umskurð kynfæra þeirra. Aðeins er hægt að gangast undir aðgerðina á nokkrum stöðum í heiminum, eða í París, London, Berlín og Amsterdam auk Stokkhólms og á vissum stöðum í Bandaríkjunum.

Nú þegar hafa verið gerðar aðgerðir á nokkrum konum, en að sögn Hannesar er von á mikilli aðsókn á næstunni, þar sem hópurinn hefur komið mikið fram í fjölmiðlum í Svíþjóð upp á síðkastið. Þá segir hann nokkrar konur þegar vera á biðlista. Loks segir hann hópinn hafa farið á ráðstefnur á Norðurlöndunum og kynnt starfið í von um að svipuð teymi verði sett upp í þeim löndum.

Þess má geta að á föstudaginn kemur, þann 6. febrúar er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn afskræmingu á kynfærum kvenna.

Frétt mbl.is: Íslenskur læknir endurskapar sníp

Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) hefur metið að yfir 133 milljónir kvenna í …
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) hefur metið að yfir 133 milljónir kvenna í heiminum séu umskornar. Þá eru 3,6 milljónir stúlkna umskornar á hverju ári, eða ein stúlka á 15 sekúndna fresti. Ljósmynd/WHO
Að sögn Hannesar eru þrjár gerðir umskurðar. Á mynd A. …
Að sögn Hannesar eru þrjár gerðir umskurðar. Á mynd A. má sjá venjuleg kynfæri konu. Á mynd B. má sjá hvar snópurinn hefur verið skorinn af. Á mynd C. má sjá hvernig snípurinn og öll húðin þar í kring auk innri skapabarmanna hafa verið fjarlægð, og á mynd D. má sjá hvar allt hið fyrrnefnda auk ytri skapabarmanna hefur verið fjarlægt og saumað hefur verið fyrir svo aðeins lítið gat er eftir. Ljósmynd/WHO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert