Sagði smálánafyrirtæki glæpastarfsemi

Starfsemi smálánafyrirtæki voru til umræðu á Alþingi í dag.
Starfsemi smálánafyrirtæki voru til umræðu á Alþingi í dag. mbl.is/Golli

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði starfsemi smálánafyrirtækja að jöfnu við glæpastarfsemi í ræðu á Alþingi í dag. Gríðarlegur gróði þeirra væri fenginn frá þeim einstaklingum samfélagsins sem stæðu veikast. Formanni efnahags- og viðskiptanefndar er ekki kunnugt um hvort starfsemi þeirra standist lög.

„Því miður ánetjast ótrúlegur fjöldi fólks smálánafyrirtæki og vandi þeirra eykst eins og snjóbolti sem rennur niður fjallshlið og skilur eftir sig slóð eyðileggingar. Þannig hefur líf fjölda fólks verið lagt í rúst þegar lánin hafa farið úr böndunum og mánaðamótin eru tími örvæntingar þar sem launin duga ekki fyrir afborgun láns. Eina leiðin er eitt okurlánið með glæpsamlegum kostnaði. Þessi bolti er mörgum ofviða og fólk brotnar,“ sagði Ásmundur.

Gróði smálánafyrirtækjanna sem Ásmundur sagðist vilja kalla glæpastarfsemi væri gríðarlegur. Helstu viðskiptavinir þeirra væru börn, unglingar, eiturlyfjasjúklingar, alkóhólistar, fátækt fólk og þeir sem væru á bótum. Nefndi hann dæmi um fjölskyldu þar sem barn hafi ætlað að svipta sig lífi vegna smálána sem höfðu hlaðist upp.

„Er það svo að við Íslendingar viljum að svona starfsemi sé leyfð í landinu þar sem gróðinn kemur frá þeim sem veikast standa?“ sagði Ásmundur sem vildi vita hvað hefði verið gert til þess að koma í veg fyrir okurlánastarfsemi smálánafyrirtækja og hvort starfsemi þeirra samræmdist lögum og góðum viðskiptaháttum.

Hægt að ógilda lánasamninga á grundvelli samningalaga

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, varð fyrir svörum og sagði hann að skýrt væri í lögum um neytendalán að kostnaður við lán mætti ekki nema meira en 50% af láninu að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans. Smálánafyrirtækin hafi hins vegar komið sér undan því með því að telja kostnað, sem gæti numið þúsundum prósenta af lánsupphæðinni, valkvæðan. Svo virtist sem þau ætluðu sér að láta reyna á lögmæti þess fyrir dómstólum enda hefðu þau ekki látist segjast þrátt fyrir að Neytendastofa hafi meðal annars beitt þau dagsektum.

Benti Frosti á að lántakendur smálána væru oft óreyndir í fjármálum, ættu við erfiðleika að stríða eða væru ánetjaðir áfengi eða fíkniefnum. Í samningalögum væri heimild til að ógilda samninga þar sem einfeldni, fákunnátta eða bágindi lántakanda væru nýtt í ábataskyni. Eins mætti ógilda samninga sem væru andstæðir góðum viðskiptavenjum.

„Mér er ekki kunnugt um að reynt hafi á þessi mál fyrir dómstólum og hvort að samningar smálánafyrirtækja standist þessi ákvæði. Líklega eru lántakendur ekki færir um að ráða sér lögmenn til að fylgja málum sínum eftir en mér finnst að mál af þessu tagi ættu að njóta gjafsóknar,“ sagði Frosti.

Neytendastofa virðist ekki hafa haft eftirlit með samningalögunum og sagði Frosti það vert skoðunar. Það gæti mögulegt styrkt stöðu neytenda. Efnahags- og viðskiptanefnd hafi jafnframt fylgst grannt með þessum málum og hafi einlægan áhuga á þeim.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert