Stelpur tæta í sundur tölvur

/sys/tur sóttu námskeið hjá Promennt um það hvernig taka á …
/sys/tur sóttu námskeið hjá Promennt um það hvernig taka á í sundur og setja á saman tölvur, og munu halda keppni í því á UTmessunni. Ljósmynd/Sonja Steinarsdóttir

Keppnin Tölvutætingur verður haldin í fyrsta sinn 7. febrúar í Norðurljósasal Hörpunnar, og er hluti af opinni dagskrá UTmessunnar. Keppnin er haldin af /sys/trum, félagi kvenna innan tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

„Keppnin gengur út á það að fjórir þátttakendur fá sett af vélbúnaði í bútum og eiga að setja saman og koma tölvunni í gang. Sá þátttakandi sem er fyrstur til að kveikja á tölvunni vinnur,“ segir Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, formaður /sys/tra, í samtali við mbl.is.

Skjáirnir munu vísa út til áhorfenda þannig að áhorfendur geta fylgst spenntir með, hvatt sitt fólk áfram og séð „live“ hver vinnur. Keppnin er samstarfsverkefni /sys/tra og Promennt, og mun fara fram klukkan 15.

Tölvunarfræði jafnmikið um tölvur og stjörnufræði um sjónauka

„Við höfðum mikinn áhuga á þessu og vildum læra þetta. Við töluðum við Promennt og spurðum hvort þau væru til í að halda námskeið fyrir okkur og þau tóku vel í það. Eftir það langaði okkur að sýna öðrum hvað þetta er auðvelt,“ segir Ingibjörg.

Aðspurð hvort tölvutætingur sé ekki eitthvað sem /sys/tur læra í skólanum svarar Ingibjörg neitandi. „Þar erum við meira að skoða fræðin og hvernig á að forrita. Tölvunarfræði er jafnmikið um tölvur og stjörnufræði um sjónauka.

Taka þátt í UTmessunni í annað sinn

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum. Tilgangurinn er ekki síst að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessunni eru öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti.

Ingibjörg segir /sys/tur hafa viljað taka þátt í UTmessunni, og því hafi verið ákveðið að Tölvutætingurinn yrði að samstarfsverkefni fyrir þann vettvang. „Við vorum líka á UTmessunni í fyrra og það var svo gaman hjá okkur að við vildum taka aftur þátt, og ákváðum þá að kíkja inn í tölvuna í þetta skiptið.“

Kenna fólki að fikta í tölvum

Promennt verður með bás á fyrstu hæð Hörpunnar og /sys/tur í Norðurljósasal. Í báðum básum verður boðið upp á að fá að fikta í tölvum og fylgihlutum, tæta og setja saman. Leiðbeinendur verða á báðum básum sem fræða gesti um vélbúnað tölvunnar og aðstoða við fiktið. 

„Á básunum verðum við með fullt af tölvum og öðru, eins og músum og lyklaborðum, sem fólk getur skoðað inn í og séð hvað þar leynist. Auk þess ætlum við að leiðbeina fólki og sýna því hvernig það getur sett tölvu saman,“ segir Ingibjörg, og bætir við að hver sem er geti komið á básana, lært hvernig setja á tölvu saman, og í kjölfarið skráð sig til leiks í keppninni.

Vinningur ekki af verri endanum

Yfir daginn, til klukkan 14, verður hægt að skrá sig til leiks í básum Promennt og /sys/tra, en keppnin er ætluð ungu fólki á aldrinum 15 til 25 ára. Klukkan 14 verður svo dregið úr pottinum um hver kemur til með að taka þátt í keppninni, en það eru fjórir sem taka þátt. 

Aðspurð segir Ingibjörg það að öllum líkindum taka þátttakendur 20-30 mínútur að setja tölvurnar saman, og keppnin geti orðið hörð. Vinningurinn er ekki af verri endanum, en sigurvegari hlýtur gjafabréf á námskeiðið Tölvuviðgerðir CompTIA A+ hjá Promennt, að verðmæti 129.000 kr.

Facebook-síða /sys/tra

Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, formaður /sys/tra, setur saman tölvu.
Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, formaður /sys/tra, setur saman tölvu. Ljósmynd/Sonja Steinarsdóttir
Að sögn Ingibjargar tekur það um 20-30 mínútur fyrir fólk …
Að sögn Ingibjargar tekur það um 20-30 mínútur fyrir fólk sem kann að setja saman tölvu að gera það. Ljósmynd/Sonja Steinarsdóttir
/sys/tur halda viðburði tvisvar sinnum í mánuði.
/sys/tur halda viðburði tvisvar sinnum í mánuði. Ljósmynd/Sonja Steinarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert